131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Þungaskattur á orkugjöfum.

186. mál
[14:31]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra heyri mál mitt. Glöggur maður vakti athygli mína á því að miðað við gildistíma núverandi lagaákvæða um fjáröflun til vegagerðar að um næstkomandi áramót muni falla niður heimild samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar. Það er heimild til að fella niður greiðslu þungaskatts fyrir bifreiðar sem nota í tilraunaskyni aðra orkugjafa en bensín og dísilolíur eða annað eldsneyti unnið úr olíu. Þessi heimild hefur verið í lögum um skeið og er til þess hugsuð, og kemur held ég að góðum notum, að auðvelda mönnum að gera tilraunir með aðra orkugjafa og ívilna þeim. Reyndar er fleiri ákvæði að finna í lögum hliðstæðs eðlis sem eiga að hvetja til að menn reyni að beisla og nýta aðra orkugjafa en innflutt jarðefnaeldsneyti. Ekki þarf að fjölyrða um hvers vegna, svo miklar sem umræður eru nú um stundir um skaðleg áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Jafnframt hafa lengi verið um það umræður hér á landi að reyna að auka sjálfbærni orkubúskapar okkar og leita leiða til að nýta innlenda orku í stað innfluttra orkugjafa.

1. júlí næstkomandi taka gildi lög um olíugjald og kílómetragjald. Þá kemur til sögunnar nýtt fyrirkomulag þessara mála og þungaskatturinn sem slíkur í núverandi mynd fellur úr gildi þó að ákveðið kílómetragjald verði áfram við lýði á stærri bifreiðar. Af þessum ástæðum lagði ég eftirfarandi fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra:

1. Verður undanþága samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, framlengd til þess er lög nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., taka gildi 1. júlí á næsta ári?

2. Hvaða hvatning verður í skattkerfinu til að nýta aðra orkugjafa en bensín eða dísilolíu eftir 1. júlí 2005?

Það er einnig fullgilt að spyrja með hvaða hætti því verður þá fyrir komið. Ég leyfi mér þá reyndar í framhjáhlaupi að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, og ber vel í veiði: Er ljóst orðið að við tímasetningu þessara kerfisbreytinga verði staðið? Gengur fyrirkomulagið um olíugjald og kílómetragjald í gildi 1. júlí næstkomandi eða er einhver óvissa uppi í þeim efnum?