131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fangelsi á Hólmsheiði.

323. mál
[14:53]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Þó finnst mér þingheimur vera enn þá að einhverju leyti í lausu lofti varðandi hið nýja fangelsi, hvenær eigi að hefja byggingu þess. Við því fengust ekki skýr svör.

Ég vil taka undir þau orð hv. þingmanna sem töluðu og hæstv. dómsmálaráðherra líka, að taka þurfi þennan málaflokk fastari tökum. Sérstaklega fagna ég því sem hæstv. dómsmálaráðherra sagði um að auka meðferðarúrræði fanga og að ræða alvarlega hvort aðskilja beri unga og eldri fanga. Ég tók eftir því að hv. þm. Drífa Hjartardóttir var einnig afar ánægð með þann hugsanlega aðskilnað. Ég vænti þess því að bæði hæstv. dómsmálaráðherra og hv. þm. Drífa Hjartardóttir muni styðja þingsályktunartillögu mína sem lýtur einmitt að þessu.

Við þurfum að taka þennan málaflokk föstum tökum. Á síðasta ári fengum við afskaplega vont frumvarp frá hæstv. dómsmálaráðherra um þennan málaflokk sem hann dró til baka, m.a. vegna gagnrýni mannréttindasamtaka og hagsmunaaðila. Nú hefur hæstv. dómsmálaráðherra lagt fram nýtt frumvarp, sem hann hefur reyndar ekki mælt fyrir, en við munum skoða það í ró og næði í hv. allsherjarnefnd og vonum að það sé skárra en hið fyrra.

Sömuleiðis bind ég miklar vonir við hinn nýja fangelsismálastjóra og að hann bæti úr þeim augljósu annmörkum á fangelsisstefnu og fangelsismálum okkar sem ég held að flestir átti sig á. Ég vil koma þeim skilaboðum til hans að við munum fylgjast vel með hinum nýja fangelsismálastjóra. Ég held að við eigum að reyna að hraða því að hefja byggingu nýs fangelsis, m.a. til að fylgja eftir þeirri þekkingu sem við höfum á þessum málaflokki. Þegar Litla-Hraun var endurgert var t.d. gert ráð fyrir hlutum sem hvorki eru notaðir né skynsamlegir, eins og hinn ógurlegi turn sem þar gnæfir yfir og enginn er í að staðaldri.

Þetta er flókinn málaflokkur og við þurfum að taka tillit til ýmissa hluta, en eitt af aðalmarkmiðunum á að vera að einstaklingar geti tekið út refsingu sína án þess að koma út sem verri einstaklingar.