131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Fangelsi á Hólmsheiði.

323. mál
[14:55]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég vil aðeins árétta það sem ég sagði. Ég tel að líta verði til fangelsisbygginga í ljósi þeirrar stefnu sem við mörkuðum. Stefnan er kynnt á þingi í nýju frumvarpi mínu um fullnustu refsinga sem mér skilst að verði til umræðu á föstudag, þannig að hægt er að ræða málið nánar þá.

Varðandi þær fyrirspurnir sem komu sérstaklega í þessum umræðum, sem ég þakka fyrir, er enginn ágreiningur á milli mín og þeirra sem hafa ályktað um að Hegningarhúsið á Skólavörðustíg eigi að hverfa úr rekstri því ég gat þess sérstaklega að það mundi gerast á næstu árum.

Varðandi vistun kvenfanga eru þeir nú vistaðir í fangelsinu í Kópavogi. Það lá fyrir sérstök fyrirspurn um það mál sem var dregin til baka og óskað eftir að ég svaraði skriflega. Ég sé því kannski ekki ástæðu til að fara mikið út í það, en þegar við ræðum frumvarpið um fullnustu refsinga er hægt að ræða þann þátt.

Ég tel að bæta þurfi eins og fram kom í máli mínu kosti fyrir kvenfanga. Það þarf að hafa jafnmikla fjölbreytni fyrir kvenfanga eins og fyrir karlmenn í fangelsum. Sú fjölbreytni er ekki fyrir hendi eins og aðstæður eru.

Eins og ég gat um eru skipulagsyfirvöld í Kópavogi þeirrar skoðunar að endurskipuleggja eigi það svæði þar sem fangelsið er núna og þá þarf að huga að því sérstaklega.

Einnig er rétt að geta þess að þegar þetta er lesið og menn rýna nánar í það sjá þeir að ég er að boða nokkuð aðra stefnu en lá til grundvallar þegar menn settu fyrst fram hugmyndir um fangelsi á Hólmsheiði. Ég held því að menn þurfi að líta á málið í heild þegar þeir leggja mat á það sem hér er rætt.