131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[10:54]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Frumvarp til fjárlaga ársins 2005 kemur nú til 2. umr. á Alþingi. Samkvæmt starfsáætlun þingsins er gert ráð fyrir að þessi umræða fari fram á þessum degi. Það er því ljóst að okkur hefur tekist að halda áætlun við umfjöllun um frumvarpið, og allt útlit er fyrir að fjárlög ársins 2005 verði afgreidd frá Alþingi í samræmi við starfsáætlun þingsins.

Nú eins og á síðasta ári eru til umfjöllunar allir þættir frumvarpsins við 2. umr., með breytingartillögum og öðru sem tilheyrir. Okkur er því að takast að festa það í sessi að fjalla um frumvarpið á þennan hátt við 2. umr. í stað þess sem tíðkaðist hér áður, að tekjuhlutinn ásamt heimildargreinum, lánsfjárlögum og öðrum þáttum málsins biði umfjöllunar við 3. umr. Þessi breyting er tvímælalaust til bóta, ásamt því að útlit er fyrir að okkur takist að ljúka afgreiðslu fjárlaga fyrr en oftast áður.

Það eru hagsmunir allra aðila að niðurstöður fjárlaga liggi fyrir tímanlega, m.a. til þess að stofnunum og öðrum aðilum verði gert kleift að ljúka gerð rekstraráætlana tímanlega áður en fjárlagaárið rennur upp. Það er ekki síður mikilvægt að fjárlög liggi tímanlega fyrir út frá öllu samhengi efnahagskerfisins því þar spila fjárlög ríkisins stórt hlutverk.

Það er mikilvægt að áfram takist að halda góðum og traustum tökum á ríkisfjármálum. Það hefur gengið vel undanfarin ár, stjórnarflokkarnir hafa sett sér markmið í þessum efnum og vinna markvisst að því að ná þeim. Birtist það m.a. í langtímaáætlun í ríkisfjármálum, og það að henni verði fylgt eftir mun hafa mikla þýðingu varðandi efnahagslífið í landinu. Það varðar því framtíðarhagsmuni þjóðarinnar að vel takist til í þessum efnum.

Það er ljóst að við Íslendingar eigum mikla möguleika á að sækja fram á næstu árum með það að markmiði að treysta efnahagslega stöðu okkar. Við höfum ýmsa möguleika á að halda áfram við að efla og byggja upp atvinnulífið og treysta innviði samfélagsins á mörgum sviðum, halda uppi hagvexti og auka kaupmátt almennings. Það liggur fyrir að almennur kaupmáttur hefur aukist mikið á undanförnum árum og mun gera það áfram.

Afrakstur alls þessa getum við nýtt til að treysta velferð þjóðarinnar enn frekar og sækja fram í samfélagi þar sem þekking og færni skiptir sköpum. Við erum á þeirri braut og á henni verðum við áfram ef vel er haldið á málum. Auk alls þessa þurfum við að halda áfram að hlúa að þeim traustu stoðum sem menning okkar og búseta í landinu öllu hvíla á og hafa gert gegnum tíðina.

Hæstv. forseti. Ég mun nú gera grein fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar þar sem ég fer yfir helstu þætti þess en vísa að öðru leyti til þingskjala þar sem fram koma breytingartillögur og ítarlegt nefndarálit.

Störf og verklag fjárlaganefndar Alþingis við vinnslu og afgreiðslu frumvarpsins hefur verið með hefðbundnu sniði. Nefndin hóf umfjöllun um málið þann 27. september sl. og átti þá viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu nefndinni grein fyrir erindum sínum og ýmsum hagsmunamálum.

Nefndin hefur haldið 32 fundi til umfjöllunar um frumvarpið og átt viðtöl við mjög marga aðila. Þá hefur nefndin átt fundi með fulltrúum ráðuneyta og einstakra stofnana auk ýmissa aðila sem sent hafa nefndinni erindi er varða verkefni hennar.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd óskað eftir umsögnum annarra fastanefnda þingsins um þá þætti frumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Fjárlaganefnd óskaði eftir álitum fastanefnda um þessa þætti en sú breyting var að þessu sinni að ekki var óskað eftir tillögum fastanefnda um skiptingu safnliða heldur var það verkefni á höndum fjárlaganefndar.

Það fyrirkomulag gildir að þessu sinni en eins og áður hefur komið fram er unnið að endurskoðun á verklagi við fjárlagagerðina þannig að ekki liggur fyrir nú hvernig þessum þætti málsins verður fyrir komið í framtíðinni. Fastanefndir þingsins skiluðu umsögnum til fjárlaganefndar og eru þær birtar sem fylgiskjöl með nefndaráliti meiri hlutans eins og fyrir er mælt um í þingsköpum.

Fulltrúar efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins og horfur í þjóðarbúskapnum. Spá um þjóðhagsforsendur er óbreytt frá því sem frumvarpið byggir á. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði 5% á árinu 2005 og verðbólga 3,5%. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann er talinn munu aukast um allt að 3,25% og spáð er að atvinnuleysi verði 2,75%.

Helstu tillögur um breytingar á tekjuáætlun frumvarpsins eru að tekjurnar verði 575 millj. kr. hærri en frumvarpið gerir ráð fyrir og verði því alls um 306 milljarðar króna. Í breytingartillögum er gert ráð fyrir að eignarskattar verði 280 millj. kr. hærri en í því felst eingöngu að umsýslugjald til Fasteignamats ríkisins falli ekki niður um næstu áramót heldur verði framlengt. Þessar tekjur munu fjármagna útgjaldaliði Fasteignamatsins sem tillögur eru um í gjaldahlið frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að bifreiðagjald verði 120 millj. kr. hærra og að ýmsar aukatekjur ríkissjóðs verði 200 millj. kr. hærri en samkvæmt frumvarpinu. Þá er lækkað gjald fyrir eftirlit með starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði um 25 millj. kr. og lækkar gjaldahlið frumvarpsins samsvarandi.

Að teknu tilliti til breytingartillagna meiri hluta fjárlaganefndar er gert ráð fyrir að tekjujöfnuður fjárlaga 2005 verði rúmir 10 milljarðar kr. í stað 11,2 milljarða eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

Hæstv. forseti. Ég mun nú gera grein fyrir helstu breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er varða sundurliðun 2, 5. gr., 6. gr. og C-hluta frumvarpsins. Það yfirlit verður ekki tæmandi en vísað er til nefndarálits meiri hlutans þar sem gerð er ítarleg grein fyrir þeim tillögum sem hér eru til umfjöllunar.

Lagt er til að fjárheimild æðstu stjórnar ríkisins verði aukin um 58,7 millj. kr. Vegur þar þyngst tillaga um 33,7 millj. kr. hækkun fjárheimildar Alþingis auk 25 millj. kr. hækkunar fjárheimildar Ríkisendurskoðunar.

Fram eru lagðar ýmsar tillögur sem hækka fjárheimild menntamálaráðuneytis samtals um 731,5 millj. kr. Er þar um að ræða nokkrar tillögur varðandi menntastofnanir, Lánasjóð íslenskra námsmanna, fornleifamál og safnamál. Þá eru tillögur um fjárheimildir til ýmissa verkefna vegna húsafriðunar og uppbyggingar gamalla húsa, til listamála og fræðistarfa auk íþrótta- og æskulýðsmála. Fyrir liggja tillögur um skiptingu fjárheimilda milli fjölmargra verkefna í þessum málaflokkum og er gerð grein fyrir þeim í sérstökum yfirlitum. Vísa ég til þeirra.

Varðandi utanríkisráðuneytið eru tillögur um að fjárheimild hækki um alls 242 millj. kr. Tillögurnar varða aðalskrifstofu ráðuneytisins, ýmis verkefni, svo sem heimssýningu í Japan og sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli. Auk þess eru tillögur varðandi Þróunarsamvinnustofnun, þróunarmál og alþjóðlega hjálparstarfsemi.

Á sviði landbúnaðarráðuneytisins er lagt til að fjárheimild hækki alls um 58,1 millj. kr. Er þar um að ræða ýmis mál, svo sem dýralækningar, rannsókna- og fræðastörf að Hólum, landgræðslu og skógræktarmál. Þá er tillaga varðandi átak í hrossarækt og upplýsingatækni í dreifbýli.

Ein tillaga fellur undir málasvið sjávarútvegsráðuneytis sem hækkar fjárheimild þess um 3 millj. kr. til sjóvinnukennslu ungmenna.

Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði aukin um 47,3 millj. kr. Breytingartillögur varða m.a. Stjórnartíðindi, uppbyggingu björgunarskipaflota Slysavarnafélagsins Landsbjargar og embættis ríkislögreglustjóra vegna viðbragðsáætlana vegna goshættu. Þá er tillaga um fjárheimild vegna þjónustu þyrlulækna Landhelgisgæslunnar, tillaga vegna fíkniefnavarna og tillögur er varða kirkjumál.

Tillögur eru um að fjárheimild félagsmálaráðuneytis aukist um alls 587,4 millj. kr. Varða þær m.a. Vinnueftirlitið og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. En í tillögum varðandi þennan málaflokk munar mest um auknar fjárheimildir til Fæðingarorlofssjóðs eða sem nemur um 500 millj. kr.

Á sviði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis er lagt til að fjárheimild hækki um 56,6 millj. kr. Í breytingartillögum eru nokkrar millifærslur milli liða auk þess sem lagðar eru til auknar fjárheimildir til reksturs sjúkrahúsa, til Reykjalundar vegna þjónustusamnings og vegna sjúklingatrygginga. Eins og áður var getið er lagt til að fjárheimild vegna nefndar um gerð og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði falli niður.

Gerðar eru tillögur um hækkun fjárheimilda fjármálaráðuneytis sem nemur alls 237,5 millj. kr. Lagt er til að fjárheimildir vegna Fasteignamats ríkisins og Landskrár fasteigna hækki í takt við hækkun tekna eins og áður er getið. Þá er lögð til hækkun vegna barnabóta og lækkun á liðnum launa- og verðlagsmál.

Lagt er til að fjárheimild samgönguráðuneytis verði aukin um 16,8 millj. kr. Um er að ræða nokkrar tillögur um millifærslur milli liða en auk þess auknar fjárheimildir vegna ýmissa verkefna, ferðamála og vegna alþjóðaflugmála.

Á sviði iðnaðarráðuneytis er lagt til að fjárheimild hækki um 53 millj. kr. Í breytingartillögum eru lagðar til nokkrar millifærslur milli liða en auknar fjárheimildir vegna kvikmyndagerðar og atvinnuráðgjafar.

Tillaga er um að fjárheimild viðskiptaráðuneytis verði aukin um 5 millj. kr. vegna áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis hækki um 119,5 millj. kr. Helstu tillögurnar varða úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn, Umhverfisstofnun, Landmælingar Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands. Auk þess eru lagðar til sérstakar fjárheimildir til sjö náttúrustofa vegna rannsóknarverkefna og loks er tillaga um fjárheimild til Veðurstofunnar vegna vöktunar á Mýrdalsjökli og við eldstöðina Kötlu.

Hæstv. forseti. Ég hef nú farið í örstuttu máli yfir helstu tillögur er varða sundurliðun 2 en í tengslum við ýmsar fjárheimildir er í sérstökum yfirlitum gerð grein fyrir skiptingu þeirra.

Varðandi sundurliðun 4, C-hluta frumvarpsins, er lögð til breyting á fjármögnun Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Lagt er til að framlag úr ríkissjóði hækki um 300 millj. kr. en á móti lækka innheimtar afborganir veittra lána um sömu fjárhæð. Er þessi tillaga í samræmi við frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem er til umfjöllunar á Alþingi.

Varðandi 5. gr. frumvarpsins er lagt til að ríkissjóður fái heimild til að endurlána allt að 150 millj. kr. til Alþjóðaflugþjónustunnar vegna framkvæmda og reksturs árið 2005.

Þá eru nokkrar breytingartillögur við 6. gr. frumvarpsins og eru þær skýrðar í sérstöku þingskjali.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar en undir það skrifa auk mín hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Birkir Jón Jónsson og Birgir Ármannsson. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Ég vil í lok máls míns þakka samstarfsfólki mínu í fjárlaganefnd, stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum, fyrir mjög gott og ánægjulegt samstarf. Starfsfólki ráðuneyta og stofnana sem nefndin hefur átt samskipti við þakka ég sömuleiðis og síðast en ekki síst vil ég fyrir hönd fjárlaganefndar þakka starfsfólki Alþingis fyrir sérlega gott samstarf og þá ómetanlegu aðstoð sem það veitir okkur í störfum okkar.