131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

320. mál
[13:54]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er tekið til umræðu frumvarp til laga um breytingu á greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum. Um er að ræða frumvarp sem kveður á um fjármögnun á Fjármálaeftirlitinu og hvernig að því er staðið og þær breytingar sem hugsanlega eru gerðar á milli ára.

Það sem mér hefur fundist athyglisverðast við frumvarpið er að því fylgja mjög vönduð fylgiskjöl um stöðu Fjármálaeftirlitsins og um þróun og horfur á fjármálamarkaði sem ég tel sannarlega ástæðu til að ræða núna undir þessum dagskrárlið vegna þess að þróunin á fjármálamarkaðnum er ákveðið áhyggjuefni að mínu viti þessa stundina.

Ég vil þó byrja á að fara yfir frumvarpið sjálft og hvernig búið er að Fjármálaeftirlitinu til að takast á við verkefni sín. Á síðustu vikum hefur ítrekað komið fram að ekki er nægjanlega vel búið að eftirlitsstofnunum okkar og er ég þá að tala um Fjármálaeftirlitið, efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og ekki síst Samkeppnisstofnun.

Varðandi efnahagsbrotadeildina hefur komið fram að hún er ekki í stakk búin til þess að taka upp mál að eigin frumkvæði sem er auðvitað mjög slæmt. Hæstv. dómsmálaráðherra lýsti því yfir í umræðu við fyrirspurn minni að ekki stæði til að setja neitt viðbótarfjármagn til þess að efla efnahagsbrotadeildina til að sinna hlutverki sínu eða til að hún gæti flýtt þeirri rannsókn sem núna stendur yfir á olíufélögunum.

Varðandi Samkeppnisstofnun kom fram í umfjöllun fjárlaganefndar um fjárlagafrumvarpið að það vantar 100 millj. kr. til þess að Samkeppnisstofnun geti með fullnægjandi hætti sinnt skyldum sínum. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál vegna þess að það er mikið í húfi að vel sé búið að þessum stofnunum og að ríkisvaldið hafi skilning á því hvað það er mikilvægt fyrir efnahagslífið, atvinnulífið og fjármálamarkaðinn og hve mikil og örugg neytendavernd er í því fólgin ef vel er búið að þessum stofnunum.

Varðandi Fjármálaeftirlitið eru tíunduð verkefni í þessari ítarlegu og ágætu skýrslu, sem að mínu viti, virðulegi forseti, fær ekki nægjanlega umfjöllun, hvorki í þeirri nefnd sem fjallar um málið né í þinginu. Þar er vandlega farið yfir þau auknu verkefni sem sífellt hlaðast á Fjármálaeftirlitið með þeim öru og miklu breytingum sem stöðugt verða á fjármálamarkaðnum og með lögum frá Alþingi er sífellt verið að bæta nýjum verkefnum á Fjármálaeftirlitið.

Fjármálaeftirlitið fer í skýrslu sinni yfir þróunina sem það sér fyrir sér til næstu ára, sem gefur til kynna að þörf er á að búa betur að eftirlitinu og fjölga þar stöðugildum. Virðulegi forseti. Ef menn eru að tala um eyðslu í því sambandi þá er það rangt að mínu viti, bæði varðandi þessa stofnun, Samkeppnisstofnun og efnahagsbrotadeildina, vegna þess að það skilar sér allt í margföldum ávinningi til þjóðarbúsins og í ríkiskassann.

Fjármálaeftirlitið vekur athygli á að aukin umsvif íslenskra viðskiptabanka erlendis kalli á aukið eftirlit. Það bendir á að umsvif og vöxtur innlendra fjármálafyrirtækja kalli á vandaðan undirbúning undir nýjar alþjóðlegar eiginfjárreglur fyrir fjármálafyrirtæki sem eiga að taka gildi á árinu 2006. Það bendir á eftirfylgni við framkvæmd nýrra laga á verðbréfasviði sem er mjög umsvifamikil og mun kalla á aukna vinnu eftirlitsins. Það þarf að sinna innleiðingu og eftirfylgni við nýja alþjóðlega reikningsskilastaðla og bent er á að með nýlegum lagabreytingum um breytingu í húsnæðismálum er Fjármálaeftirlitinu falið heildareftirlit með Íbúðalánasjóði. Síðan er einnig bent á aukin verkefni sem tengjast breytingum á lögum um vátryggingamarkað. Fjármálaeftirlitið segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af framangreindu er það mat Fjármálaeftirlitsins að mæta þurfi auknu umfangi í starfsemi eftirlitsins á næsta ári með svigrúmi í rekstri sem nemi um einu ársverki. Ljóst er að þörf vegna framangreindra verkefna nemur meiru en einu ársverki. Fjármálaeftirlitið mun leitast við að mæta þeirri þörf að öðru leyti með enn bættu innra skipulagi og forgangsröðun í nýtingu fyrirliggjandi þekkingar og reynslu.“

Þessu vildi ég vekja athygli á, það verður að fylgjast að að búa vel að Fjármálaeftirlitinu og það að færa því sífellt aukin verkefni. Ég ætla ekki sérstaklega að þessu sinni að fara yfir rekstraráætlun stofnunarinnar en vil, virðulegi forseti, fara örfáum orðum um ítarlega umfjöllun í þessari skýrslu um fjármálamarkaðinn, þróun og horfur.

Það hefur vissulega vakið athygli mína, virðulegi forseti, að í því mikla umróti sem er á fjármálamarkaðnum, þeirri miklu útlánaþenslu sem þar á sér stað þar sem viðvaranir og hættumerki blasa við öllum sem hafa opin augun, hefur lítið heyrst í hæstv. bankamálaráðherra. Við höfum verið að fjalla um skattamálin og höfum vissulega áhyggjur af því að það að fara að lækka skattana í því þensluástandi sem nú er geti haft slæm áhrif á verðbólguþróunina. Við höfum þó metið það svo að það sé svigrúm til þeirra skattalækkana á næsta ári sem við höfum staðið fyrir í Samfylkingunni en ég bendi á í þessu sambandi að menn verða að skoða hlutina í samhengi. Það er mikil útlánaþensla á fasteignamarkaðnum og ég held hún hafi í raun og sanni miklu alvarlegri afleiðingar en það sem við erum að tala um varðandi lækkun skatta á næsta ári.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem við, sem erum að fjalla um húsnæðismálin í félagsmálanefnd, höfum fengið eru það 55 milljarðar sem bankarnir lánuðu út frá 23. ágúst til októberloka. Þar af má áætla að í neyslu fari um 10–15% sem eru þá kannski um 8,5 milljarðar. Það er mjög mikil innspýting inn í þá stöðu sem við erum í í efnahagsmálunum og er ástæða til að stoppa við það.

Það er vissulega mjög hagstætt fyrir lántakendur að geta umbreytt erfiðum og dýrum bankalánum yfir í lán með lægri vexti eins og nú bjóðast en það er samt full ástæða til að líta mjög til þeirrar þróunar sem við erum að sjá núna á markaðnum.

Bankarnir standa að verulegu leyti fyrir þessari útlánaaukningu sem ég nefni og ég vil geta þess að þeir voru með ákveðnar viðvaranir fyrir ári. Samtök banka og verðbréfafyrirtækja vöruðu við þeim áformum sem uppi voru hjá Íbúðalánasjóði að fara upp í 90% lán og hækka hámarksfjárhæðina. Þau sögðu í bréfi sem ég hef hér undir höndum að það væri óvarlegt að fara hærra með hámarkslánin en í 11–12 millj. og það í árslok 2007. Þetta sögðu þessir forsvarsmenn bankanna, og sögðu svo orðrétt, með leyfi forseta:

„Þetta skiptir afar miklu máli til að sporna við hættu á verulegri ofþenslu á fasteignamarkaðnum.“

Nú eru bankarnir farnir að bjóða 100% lán og ekki 11–12 millj., heldur er þak þar rúmlega tvöfalt hærra, þ.e. um 25 millj. og ekkert þak á lánum miðað við 80% lán. Ég heyri það á fasteignasölum sem hafa heimsótt efnahags- og viðskiptanefnd að þeir eru áhyggjufullir út af þeirri stöðu sem uppi er, nota orðið öngþveiti um fasteignamarkaðinn og segja að í þeim asa sem hér gangi yfir í lánveitingum hjá bönkunum sé ráðgjöf kannski ekki nægilega vönduð. Þess vegna er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu. Víða hringja viðvörunarbjöllur og ég hef sjaldan séð frá þeim sem eftirlit eiga að hafa með fjármálamarkaðnum, bæði Seðlabanka og Fjármálaeftirliti, eins sterkar aðvaranir um að veruleg hætta sé á fjármálakreppu og í þeirri stöðu sem við erum í núna varðandi útlánaþensluna. Menn tala alveg hikstalaust um verulega hættu á því að verið sé að yfirveðsetja eignir og að fólk geti staðið frammi fyrir því fyrr en menn órar að skuldir verði hærri en eignir. Það er alvarlegt mál. Þessar eftirlitsstofnanir benda til Norðurlandanna og þess sem þar gerðist fyrir ekki mörgum árum.

Við erum að tala um verðbólguna og allir hafa áhyggjur af henni, að hún sé á uppleið, aðilar vinnumarkaðarins og verkalýðshreyfingin komin í viðbragðsstöðu varðandi kjarasamningana, og þess vegna hygg ég að þessi útlánaþensla sé kannski helsti hættuvaldurinn sem við stöndum frammi fyrir núna. Í vægi vísitölunnar er húsnæðisliðurinn mjög þungur. Hann vegur orðið mjög þungt í vísitölunni, m.a. út af þessari þróun. Við sjáum að fasteignaverðið blæs hér upp og það er alveg ljóst að unga fólkinu sem er að kaupa sér íbúðir bjóðast vissulega hærri lán en áður var en verulega stór hluti af lánveitingunum fer beint í meiri skuldsetningu og hærra íbúðaverð. Það er þetta sem ég hef áhyggjur af. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún sjái fyrir sér þessa þróun. Við höfum ekkert heyrt frá bankamálaráðherranum um þessa þróun á markaðnum sem er þó full ástæða til að hafa áhyggjur af.

Ég spái því að í næstu útgáfu Peningamála, ritinu sem Seðlabankinn gefur út, verði þann 2. desember boðað að hækka þurfi vexti enn meira en gert hefur verið, t.d. varðandi stýrivextina, sem þá gæti leitt út í almenna vaxtalækkun. Ég býst við að við munum sjá þar einhverjar tölur sem valda áhyggjum varðandi þenslu og verðbólgu. Þó að menn hafi fyrir nokkrum mánuðum haft áhyggjur af því að Íbúðalánasjóður mundi hækka hámarksfjárhæðina sem gæti haft óæskileg áhrif á markaðinn — og reyndar varaði Seðlabankinn við því í sumar — skiptir það orðið engu máli núna. Það breytir ekki nokkru þó að við förum í 15–16 millj. með húsnæðislánin vegna þess að fólk mun bara fara með viðskipti sín yfir í bankana í enn meira mæli en við höfum séð hingað til ef Íbúðalánasjóður á að sitja uppi með það að geta einungis lánað fyrir lítilli kjallaraholu, 90% af lítilli kjallaraholu eða tveggja herbergja íbúð.

Ég ætla ekki að fara að taka upp almennar umræður um húsnæðismálin en þetta tengist þeim áhyggjum sem við höfum af fjármálamarkaðnum. Þess vegna vildi ég setja málið í samhengi við hann. Við sjáum líka í þessari skýrslu sem við ræðum hér að Fjármálaeftirlitið hefur ákveðnar áhyggjur og segir, með leyfi forseta, að frá „árslokum 2002 hefur útlánavöxtur innlánsstofnana verið umtalsverður og hefur 12 mánaða aukning á fyrri hluta ársins farið yfir 30%“. Þetta var áður en þessi sprenging kom til og að hluta til er um að ræða útlánaaukningu til erlendra aðila. Þessi mikla útlánaaukning er áhyggjuefni þar sem reynslan sýnir að í kjölfar mjög hraðrar útlánaaukningar má búast við auknum útlánatöpum. Þarna klingir enn ein viðvörunarbjallan.

Síðan er á bls. 35 í þessari skýrslu sem ég er með sýnd þróun í brúttó- og nettóskuldum viðskiptabanka og sparisjóða gagnvart erlendum aðilum frá júní 1998 til júní 2004. Frá árslokum 2002 segir svo hér að brúttóskuldir hafi tvöfaldast. Við erum að sjá verulega aukningu í brúttó- og nettóskuldum viðskiptabanka og sparisjóða gagnvart erlendum aðilum. Þar er verið að sýna aukningu sem er áður en sú útlánaþensla kemur til sem við erum að ræða.

Það er full ástæða, virðulegi forseti, og beini ég því líka til bankamálaráðherra, að hafa áhyggjur af því að bankarnir láni núna umfram það sem þeir raunverulega geta, a.m.k. margir hverjir. Hefur Fjármálaeftirlitið varað við því og í ræðu forstöðumanns Fjármálaeftirlitsins kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Í öðrum tilvikum er ljóst að ekki hefur verið hugað nægilega vel að fjármögnun lánanna í upphafi eða arðsemi þeirra lána að teknu tilliti til þátta eins og afskrifta, rekstrarkostnaðar og annarra tekna.“

Sérfræðingar hafa raunverulega sagt að bankarnir gætu ekki með góðu móti staðið undir lægri vöxtum nú um stundir en 4,8–5% en þeir eru komnir niður í 4,15% sem er það nýjasta.

Ég vildi taka þetta upp hér, tel alveg ástæðu til þess þar sem við erum að ræða ítarlega skýrslu sem á skilið mikla umræðu. Hér er vandað vel til verka og þeir sem að þessari skýrslu standa árlega hingað til þingsins eiga heiður skilið fyrir það hvernig þeir standa að málum við að upplýsa þingið. Við eigum að nýta tækifærið með þessar upplýsingar í höndunum til að ræða þróun og horfur á fjármálamarkaði. Til þess er full ástæða um þessar mundir þar sem viðvörunarbjöllur klingja víða um þjóðfélagið og eftirlitsstofnanir hafa reist upp þau flögg að veruleg hætta sé á ferðum.