131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Stuðningur við stríðið í Írak.

[15:19]

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir lofið en hygg að það hafi kannski verið örlítið oflof hjá ágætum vini mínum, og bið hann um að oftúlka ekki orð mín.

Hvert er hlutverk stjórnmálamanna? Er það ekki hlutverk okkar allra sem höfum gefið okkur í stjórnmál að vilja skoða mál og fara yfir þau? Erum við ekki stöðugt að gera það, í hverju einasta máli? Ég tel, og hef sagt það, ekkert óeðlilegt fyrir okkur að skoða aðdraganda þessa máls. Ákveðnar forsendur komu fram sem síðar reynast ekki réttar. Á þeim tíma sem þær komu fram trúðu menn því að slíkar forsendur væru réttar.

Það er líka rétt, herra forseti, að minna á að við sem smáríki höfum í 50 ár verið háð upplýsingum frá mörgum bandamönnum okkar og á þeim upplýsingum höfum við byggt ákvarðanir okkar. Ef forsendur eru ekki réttar er eðlilegt að við förum yfir það hvernig við ætlum að bregðast við til framtíðar.

Það sem mestu máli skiptir, virðulegur forseti, er að við öxlum ábyrgð okkar eins og öryggisráðið hefur samþykkt um uppbyggingu hjá stríðshrjáðri þjóð. Við getum ekki frekar en bandamenn okkar í austri og vestri dregið okkur út úr því uppbyggingarstarfi. Við hljótum að axla þá ábyrgð. Þetta eru þeir hlutir sem er eðlilegt að fara yfir og eðlilegt að skoða. Það er hlutverk okkar sem stjórnmálamanna.