131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga í ljósi nýgerðra kjarasamninga.

[15:39]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er alveg gáttaður á málflutningi hæstv. félagsmálaráðherra, bæði hér í þessum ræðustóli og eins á því sem ég heyrði af ræðu hans á aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Hæstv. félagsmálaráðherra talar eins og hann hafi verið fjármálaráðherra í 100 ár og talar af mikilli íhaldssemi um það að standa verði á bremsunum, ekki megi auka útgjöldin, það gangi ekki að sveitarfélögin komi með reglubundnu millibili og heimti meiri peninga og þau verði að líta í eigin barm. Svo fer hann með talnaþulu sem á að sýna að í raun og veru sé þetta allt í lagi af því að samtals hafi ráðstafanir af ríkisins hálfu þýtt 600 millj. til sveitarfélaga. Hvað með t.d. skattkerfisbreytingar sem kosta sveitarfélögin á annan milljarð á hverju einasta ári vegna fjölgunar einkahlutafélaga? Hvað með öll hin málin, hæstv. félagsmálaráðherra, þar sem sannarlega hallar á sveitarfélögin í samskiptum við ríkið? Ég get skilið hæstv. fjármálaráðherra, að hann tali sem íhaldsmaður og á bremsunum gagnvart því að peningarnir streymi úr kassanum hjá honum, en að hæstv. félagsmálaráðherra, ráðherra málefna sveitarfélaganna, skuli vera ef eitthvað er heldur verri en fjármálaráðherra í viðhorfum sínum — það undrar mig mjög. Þá er ekki von á miklum árangri. Það er ekki von á góðu ef fagráðherrann í ríkisstjórninni er eiginlega aftan við fjármálaráðherrann í vörninni gagnvart því að ekki fari peningar til sveitarfélaganna.

Veruleikinn er eins og hann er, hæstv. félagsmálaráðherra. Hallarekstur sveitarfélaganna, afkoma þeirra, kröfurnar sem á þau standa um þjónustu, ýmiss konar útgjaldaaukning sem sveitarfélögin sjálf hafa ekkert um að segja. Þetta er allt saman veruleiki, hæstv. félagsmálaráðherra, sem við verðum að horfast í augu við. Það tjáir ekki að berja höfðinu við steininn með þessum hætti. Það er nóg að hafa einn fjármálaráðherra til að standa á bremsunum. Hæstv. félagsmálaráðherra, ráðherra málefna sveitarfélaganna, þarf ekki að ganga í lið með honum.