131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga í ljósi nýgerðra kjarasamninga.

[15:41]

Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Það má eiginlega skipta fjárhagsvanda sveitarfélaganna í þrjá hluta, í fyrsta lagi að sveitarfélögin hafa aukið þjónustuna, þ.e. bætt búsetuskilyrðin, t.d. með aukningu í þjónustu í grunnskólum, dægradvöl, félagsmiðstöðvar o.fl., í íþróttamálum, byggt knatthús, skautahallir — það kostar allt peninga og aukna þjónustu — og í menningu og listum hafa sveitarfélögin líka lagt mikla fjármuni, bæði til stofnkostnaðar og reksturs.

Í öðru lagi eru það kjararsamningar sem núna hafa verið gerðir við grunnskólakennara og margir eiga eftir að koma á eftir, við leikskólakennara og aðra opinbera starfsmenn. Þessir kjarasamningar, eins og ég hef sagt í þessum stól, virðulegi forseti, eru mjög glannalegir og geta leitt til verðbólgu í landinu, upptöku kaupmáttar en ekki aukningar, því miður. Það getur orðið mjög dýrkeypt fyrir sveitarfélögin.

Í þriðja lagi, eins og hv. málshefjandi kom hér að, eru tekjustofnarnir milli ríkis og sveitarfélaganna. Þar eru ýmsir hlutir sem hafa verið útgjaldaaukandi fyrir sveitarfélögin eða haft í för með sér minnkandi tekjur, svo sem eins og einstaklingsrekstur sem er breytt í einkahlutafélög, húsaleigubætur, félagslegar íbúðir og mörg önnur atriði, lagalegs eðlis sem bæði hafa verið tekin á þinginu og reglugerðarbreytingar í ráðuneytunum.

Að mínu mati er lykilatriði að ganga frá þessum málum áður en lengra verður haldið varðandi frekari verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það er lykilatriði að ganga frá þeim atriðum fyrst. Eðlilegar breytingar á kjarasamningum milli ára þola sveitarfélögin. Þetta er atriði númer eitt sem þarf að ganga frá. Hitt geta síðan sveitarfélögin átt við sjálf sig, þ.e. aukið þjónustustig sem kostar líka fjármuni þannig að þetta er þríþætt eins og ég kom að, virðulegi forseti.