131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga í ljósi nýgerðra kjarasamninga.

[15:44]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegi forseti. Stjórnarmeirihlutinn getur ekki vikið sér undan því að efla núverandi tekjustofna sveitarfélaga til að þau geti með eðlilegum hætti sinnt lögbundnum og nauðsynlegum verkefnum sínum. Kostnaður sveitarfélaganna fer sífellt vaxandi vegna nýrra verkefna og laga sem valda nýjum álögum og vegna þess að ríkið hefur ákveðið að minnka kostnaðarþátttöku sína í sameiginlegum verkefnum. Krafa fólks um þjónustu sveitarfélaga hefur aukist hin síðari ár. Auk þess hafa ný umhverfisviðhorf sjálfkrafa valdið auknum kostnaði, svo sem fráveitumál og friðlýsing landsvæða.

Um 70 sveitarfélög voru rekin með halla á síðasta ári, m.a. af fyrrgreindum ástæðum, og einnig hefur vandi sumra sveitarfélaga vegna annarra þátta vaxið, svo sem vegna aukins kostnaðar við rekstur grunnskólans og í sumum tilfellum vegna stóraukins kostnaðar af húsaleigubótum.

Sveitarfélögin hafa verið að taka á sig aukin verkefni án þess að tekjustofnar hafi fylgt með. Því verður að efla tekjustofna þeirra áður en þau taka við nýjum verkefnum, t.d. er líklegt að öldrunarmál og málefni geðfatlaðra færist í auknum mæli til sveitarfélaganna. Eldri fjárhagsvandi og ný verkefni verða ekki leyst á vegum sveitarfélaganna án nýrra tekjustofna, eins og þessi umræða og margar fyrri umræður um fjárhagsvanda sveitarfélaganna hafa leitt í ljós.

Sveitarfélögin í landinu eru 101 og er stefna stjórnvalda að fækka þeim í liðlega 40. Í þeim tilgangi var sett á fót þverpólitísk sameiningarnefnd sveitarfélaga. Í tillögum sameiningarnefndar er nefnt að öflugri sveitarfélög verði betur í stakk búin til að uppfylla kröfur til sveitarstjórnarstigsins og atvinnulífsins og taka að sér ný verkefni. Það verður aldrei hægt að leysa vanda landsbyggðarinnar með því einu að sameina sveitarfélögin. Ríkisstjórnin verður að viðurkenna vanda sveitarfélaganna í verki en ekki orði.