131. löggjafarþing — 45. fundur,  30. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[16:08]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Frú forseti. Umræðan sem hér hefur staðið lungann úr deginum um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2004, hefur um margt verið lík slíkri umræðu en ég minnist þess þó ekki undanfarin ár að svo slakleg þátttaka hafi áður verið af hálfu stjórnarliða í þeirri umræðu. Nú virðast stjórnarliðar vera algjörlega horfnir úr umræðu um fjáraukalög og veit ég ekki hverju það sætir nema ef vera skyldi að þeir séu orðnir sammála okkur í minni hluta fjárlaganefndar um þau vinnubrögð sem því miður eru enn viðhöfð bæði við fjárlagagerð og fjáraukalagagerð og treysti sér þess vegna ekki lengur til að verja þau vinnubrögð. Vona að gott á viti, en það er ekki stjórnarliðum sæmandi að sýna ekki meiri þátttöku í umræðunni og reyna að verja þær gjörðir sem við vitum auðvitað öll að hv. þingmenn munu síðan styðja í atkvæðagreiðslu væntanlega á morgun. (Gripið fram í.) Það gæti verið, hv. þingmaður, að stjórnarliðar séu orðnir svo fullir af veruleikaflótta að þeir óttist veruleikann í þessu þannig að þeir séu komnir í takt við þau vinnubrögð sem því miður eru viðhöfð við það frumvarp sem við hér ræðum, að veruleikaflóttinn sé orðinn allsráðandi í stjórnarliðinu. Við skulum vona að þeir nái aftur að tengjast veruleikanum og geti bætt um betur við næsta tækifæri því að við skulum ekki gleyma því að þó að hér sé ýmislegt sem betur má fara, þá hafa vissulega verið stigin skref í rétta átt þannig að margt hefur lagast, en vissulega þarf mjög margt að bæta.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi m.a. í ræðu sinni þá skattaumræðu sem verið hefur að undanförnu og er auðvitað rétt að við rifjum örlítið upp í því samhengi vegna þess að við erum að fjalla um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2004. Við skulum ekki gleyma því að sú ríkisstjórn sem nú situr hóf feril sinn eftir kosningar með því að hækka ýmis gjöld og skatta. Við ræddum það töluvert í tengslum við fjárlög yfirstandandi árs að þar væri væntanlega verið að safna fyrir þeim skattalækkunum sem boðaðar voru í kosningunum.

Nú höfum við fengið fram frumvarp með skattalækkunum og það er eitt sem er algjörlega kristaltært að þegar tölur eru lagðar saman blasir við að í lok næsta árs hefur ríkisstjórnin sótt meira fé í gegnum hækkun skatta og ýmiss konar gjalda en verið er að veita í skattafslætti á næsta ári. Hversu mikið það er ætla ég ekki að fullyrða, nefnd hefur verið talan milljarður og mér kæmi ekki á óvart þó að sú tala gæti jafnvel verið hærri þegar við t.d. framreiknum og verðbætum þau gjöld og skatta sem bætt var við á þessu ári. Þannig að allur þessi galsi manna um að verið sé að stíga söguleg skref í skattalækkunarátt er býsna innihaldslítill þegar allar þessar tölur eru lagðar saman og skoðaðar í samhengi.

Ég ætla ekki að fullyrða á þessu stigi að þannig verði útkoman einnig þegar kjörtímabilinu lýkur, en mér sýnist ýmislegt benda til þess að hugsanlega verði það nokkurn veginn á sléttu, það fer auðvitað eftir því hvernig ýmsar efnahagsstærðir munu þróast, en mér kæmi ekki á óvart að það væri nokkurn veginn á sléttu þegar upp er staðið í lok kjörtímabilsins.

En þá þarf að skoða, og við þurfum auðvitað að fara í þá vinnu, hvernig þetta hefur síðan komið á mismunandi tekjuhópa í samfélaginu. Ég er ansi hræddur um að þegar við skoðum það fáum við þá útkomu að í raun og veru séu allar þessar kúnstir að færa til fjármuni í samfélaginu, þ.e. að enn einu sinni sé verið að færa fjármuni frá þeim sem minna hafa til hinna sem meira hafa, vegna þess að það sem verið er að gera, eins og við vitum, er að lækka prósentur í tekjuskatti og síðan að fella út hinn svokallaða hátekjuskatt. Síðar á kjörtímabilinu koma síðan inn fleiri aðgerðir sem eru frekar til jöfnunar. Þetta skilar að sjálfsögðu, af því að þetta er leiðin sem farin er, hærri fjármunum til þeirra sem meira hafa fyrir. En hin gjöldin sem hafa verið hækkuð eru mörg hver þeirrar tegundar að hinir tekjulægri geta ekki komist hjá því að greiða þau, þannig að fjármununum sem sóttir hafa verið eftir þeirri leið inn í ríkissjóð er síðan deilt út aftur til hinna sem meira hafa, þ.e. í meira mæli. Þessi leið er því eitthvað sem þarf að skoða. Það væri auðvitað fróðlegt ef einhver úr stjórnarliðinu gæti komið með þessar tölur þannig að það lægi alveg ljóst fyrir hvernig þetta er hugsað, þ.e. hvað búið er að ná í mikla fjármuni með hinum breyttu tillögum í innheimtu sem liggur fyrir á þessu ári og síðan áfram á næsta ári. Við sáum það í gær þegar frumvörpin komu hvert af öðru að við það að hækka gjöld var, ef ég man rétt, komið á sjöunda hundrað milljónir sem þar var tekið á einum degi, þannig að þegar þetta er allt lagt saman sjáum við þessar tölur hreint og klárt, því að ég trúi ekki öðru en að þeir sem standa á bak við allar þessar tillögur hafi skoðað það allt saman báðum megin frá og farið vandlega yfir það hvernig þetta fjármagn er sótt til ákveðinna hópa og hvernig því er síðan dreift út, þannig að það sé algjörlega skýrt hver tilgangurinn er með þessu öllu saman.

Það væri fróðlegt ef hæstv. fjármálaráðherra eða einhver úr hans liði hefði þessar tölur þannig að við gætum bara fengið þetta og þyrftum ekkert að velta þessu fyrir okkur. Þó að við getum reiknað ýmislegt og farið yfir það þá verður það að játast að miklu betri upplýsingar eru fyrir hendi í fjármálaráðuneytinu þannig að auðveldast ætti að vera að reikna þetta þar. Vel getur verið að við leitum eftir þessum upplýsingum þar. Þó að við höfum nú misjafna reynslu af því að leita upplýsinga úr þeim herbúðum þá getur vel verið að við reynum að leita í það forðabúr til þess að fá þessar upplýsingar algjörlega klárar.

Frú forseti. Fleira tengist þessu og það stærst hvernig við ætlum að tryggja stöðugleikann og halda niðri verðbólgunni. Ég ætla ekki að fara að gagnrýna það beint en vil segja vegna þess að ég hef tekið þátt í því og tel að við í minni hlutanum höfum lagt okkur fram í því að flýta fjárlagaferlinu þinginu, að það er umhugsunarefni hvort við höfum farið of geyst í þá hluti. Nú á fimmtudag kemur t.d. ný þjóðhagsspá frá Seðlabanka Íslands. Eftir að Þjóðhagsstofnun var aflögð hefur fjármálaráðuneytið tekið að sér að vera með þær spár sem lagðar hafa verið til grundvallar í fjárlagaferlinu en hefur ekki talið ástæðu til þess að endurskoða forsendurnar fyrir lokaafgreiðslu fjáraukalaga og fjárlaga. Því er meiri hætta á því nú á þessu ári eins og í fyrra að við séum því miður ekki með nægjanlega góðar forsendur. Ég fór yfir það við 2. umr. um fjáraukalögin að forsendur þessa árs hafi meira og minna allar brugðist og taldi að ég væri að færa rök fyrir því að þess vegna væri m.a. ástæða til þess að endurskoða þessar áætlanir. En það hefur ekki verið talið svo í fjármálaráðuneytinu þannig að við hljótum að bíða með frekari umræðu um þetta þar til við höfum endurskoðaða þjóðhagsspá sem kemur út í riti Seðlabankans á fimmtudaginn og getum þar af leiðandi rætt það vonandi í 3. umr. um fjárlög.

Frú forseti. Því miður hefur gleymst hjá okkur í umræðunni að koma með eitt sérstakt mál fyrr, en það hefur vakið athygli okkar að hjá sjávarútvegsráðuneytinu er nú verið að óska eftir töluverðum fjármunum til þess að standa straum af kostnaði við hrefnuveiðar. Þetta eru hinar svokölluðu vísindaveiðar sem hafa að áliti ýmissa misjafnlega mikið vísindayfirbragð. En það ætla ég ekki að ræða hér, ekki um ástæður veiðanna heldur vil ég fá upplýsingar. Enn á ný, frú forseti, óska ég eftir því að ef stjórnarliðar hafa betri upplýsingar en við að þær komi þá fram hér við umræðuna vegna þess að afskaplega erfitt er að átta sig á því hvað þessar hrefnuveiðar hafa kostað. Það er afskaplega erfitt að átta sig á því hvaða áætlanir lágu til grundvallar þessum veiðum.

Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2004 var t.d. gert ráð fyrir 8,5 milljónum til þess að greiða upp tap vegna vísindaveiðanna á árinu 2003. Ég ætla ekki, frú forseti, að fara yfir lög um fjárreiður ríkisins, en samkvæmt þeim á þessi tala náttúrlega í fyrsta lagi ekkert heima í fjáraukalögum fyrir árið 2004 því að hún hefur orðið til á árinu 2003 og tilheyrir þar af leiðandi ekki árinu 2004. En þetta er nú eitt af því sem enn liggur eftir í því að bæta umgengni um lög um fjárreiður ríkisins og við vonum að það takist fyrr en síðar að koma svona hlutum út. En þarna eru sem sagt áætlaðar 8,5 milljónir kr.

Síðan gerist það við 2. umr. að meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um 15,1 milljón í framlag vegna þessara sömu veiða, en nú reyndar á árinu 2004. Það kemur síðan fram í svari til hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar sem spyr um Verkefnasjóð sjávarútvegsins að sjávarútvegsráðuneytið hafi lagt til á þessu ári til veiða sem í þeim plöggum heita nú orðið rannsóknarhvalveiðar 18,9 millj. kr. Hér virðist því vera komin tala upp á 34 millj. kr. á þessu ári sem er utan við það sem væntanlega hefur verið gert ráð fyrir í fjárlögum ársins. Ég hef ekki haft tök á því að kanna hversu sú tala var há. Þess vegna er nauðsynlegt að spyrja, ef einhver getur því svarað: Hvað var áætlað að þessar veiðar kostuðu og hvað er gert ráð fyrir að þessar veiði hafi kostað? Hve mikið er tapið orðið af þessum veiðum? Það verður fróðlegt að fá svör við því og við munum væntanlega ræða það enn frekar varðandi árið 2005 við 3. umr. um fjárlög á föstudag hvað sé áætlað að þessar veiðar muni kosta á næsta ári.

Frú forseti. Þessi ræða mín á ekki að verða mjög löng. Örlítið hefur borið á umræðum um þann málflutning sem við höfum reglulega verið með hér til þess að reyna að bæta vinnubrögð við fjárlagagerðina. Við höfum tínt til í því samhengi ýmis talnasöfn og m.a. höfum við lagt okkur nokkuð fram við að bera saman ríkisreikning og fjárlög og fjárlagafrumvörp til þess að velta því fyrir okkur hversu marktækir þessir pappírar séu. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að því miður virðist það vera stundað ár eftir ár að leggja fram glanspappíra, reyna að koma þeim skilaboðum út að hér sé allt með felldu, hér sé allt svo glæsilegt og hér sé allt saman best. Þegar við höfum síðan farið í þennan samanburð höfum við komist að því að því miður er þetta bara rangt og það eru allt of miklar líkur á því að þær niðurstöðutölur sem samþykktar eru í þinginu í fjárlögum á hverju ári verði síðan allt aðrar þegar raunveruleikinn hefur tekið völdin.

Frú forseti. Þess vegna held ég að það sé alveg nauðsynlegt að rifja örlítið upp það sem fram kemur í III. kafla skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings árið 2003. Það er í kafla sem heitir Reikningsskilaaðferðir. Þar er farið mjög nákvæmlega yfir þetta og ekki að ástæðulausu. Ríkisendurskoðun segir að þetta sé vegna þess að átt hafi sér stað opinber umræða um þessi mál.

Á bls. 17 segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Annað þeirra atriða sem einkum hafa verið til umfjöllunar er samanburður á fjárlögum og ríkisreikningi. Lög um fjárreiður ríkisins kveða skýrt á um að þessi tvö reikningsskil séu að fullu sambærileg.“

Frú forseti. Þetta er ekki úr nefndaráliti okkar fulltrúa Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd. Þetta er ekki úr ræðu neins af okkar hv. þingmönnum. Þetta er úr skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það ætti því ekki að þurfa að deila um að þetta er að fullu sambærilegt, enda er það eðlilegt þannig að það sé hægt að bera þessa hluti saman og fjalla um það sem betur má fara.

Frú forseti. Á næstu blaðsíðu segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Tekið skal fram að gert er ráð fyrir að ríkisreikningur verði færður með sama hætti og því verði áætlanir fjárlaga og niðurstöður ríkisreiknings að fullu samanburðarhæf.“

Enn á ný er sagt að gert sé ráð fyrir því í áætlanagerðinni að fjárlögin séu algjörlega sambærileg við ríkisreikning. En það sem helst hefur verið notað af stjórnarsinnum sem hafa ýmsir hlaupið út á tún og týnt sér þar, eru hinir óreglulegu liðir. Menn hafa gjarnan veifað alls konar nöfnum í því samhengi og talið að þar með væri allur okkar málflutningur horfinn og jarðaður.

En svo vill til að í þessari skýrslu er einmitt fjallað sérstaklega um hina óreglulegu liði og á bls. 18 segir, með leyfi forseta:

„Óreglulegir rekstrarliðir eru einkum liðir sem ekki lúta valdi forráðamanna fyrirtækis, heldur eru utanaðkomandi öfl að verki og eignaupptaka. Dæmi eru t.d. tjón af völdum jarðskjálfta eða annarra náttúruhamfara.“

Frú forseti. Í raun er hér verið að segja að það sem er óreglulegt er það sem er ekki í valdi okkar mannanna, ekki nokkur leið að sjá fyrir.

Þessu er fylgt töluvert betur eftir hér og ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að fara örlítið betur yfir þetta. Þar er kallaður til reikningsskilastaðall Alþjóðareikningsskilaráðsins.

Þar er fjallað um þetta og segir hér orðrétt, með leyfi forseta:

„... að næstum allir tekju- og gjaldaliðir í uppgjöri hins opinbera verða til við reglulega starfsemi.“

Örlitlu neðar á sömu síðu segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Óreglulegir liðir verða að vera vel aðgreinanlegir frá venjulegri starfsemi. Fjárhæðin sem um ræðir þarf líka að vera stór í hlutfalli við stærð ríkisins í heild en ekki eins ráðuneytis eða einhverrar einingar innan ríkisgeirans. Af þessari ástæðu einni eru óreglulegir liðir afar sjaldgæfir.

Færsla óreglulegs liðar má ekki vera fyrirsjáanleg og getur því ekki verið hluti af áætlunargerðinni.“

Frú forseti. Síðan er ástæða til að leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi setningu:

„Ef einhver liður er inni í fjárlögum bendir það til þess að hann hafi verið fyrirsjáanlegur.“

Þess vegna, frú forseti, þýðir ekkert fyrir stjórnarliða að koma og benda á liði sem eru í fjárlögum og segja að það séu óreglulegir liðir. Þeir væru ekki í fjárlögum ef þeir væru óreglulegir.

Síðasta tilvitnun, með leyfi forseta:

„Óreglulegur liður þarf að vera fyrir utan valdsvið og ákvarðanatöku stjórnvalda. Söluhagnaður eða sölutap af eignum ríkisins flokkast ekki sem óreglulegir liðir vegna þess að ákvörðun um söluna er tekin af ráðamönnum, þ.e. hún er tekin innan dyra en kemur ekki utan frá.“

Frú forseti. Þetta er líklega sá liður sem stjórnarliðarnir hafa hvað mest orðað, það er söluhagnaðurinn, að ekki sé nokkur leið að sjá fyrir hvað hitt og þetta verði selt á. En samkvæmt hinum alþjóðlegu stöðlum, samkvæmt þeim lögum sem við störfum eftir þá er það ekki óreglulegur liður af þeirri einföldu ástæðu að stjórnarherrarnir sjálfir taka þessa ákvörðun.

Frú forseti. Ég held ég láti þetta duga og vona svo sannarlega að ég þurfi ekki enn einu sinni að fara yfir þessi samanburðarfræði. Ég vona — eins og sumir hv. þingmenn stjórnarliðanna hafa sagt — að þessi umræða sé tæmd. Ég vona svo sannarlega að núna sé hún tæmd og við séum laus við þann málflutning sem við höfum heyrt allt of mikið af um að ekki sé hægt að bera saman þessa sambærilegu pappíra.