131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[10:59]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegi forseti. Skuldir heimilanna í dag eru 800 milljarðar kr. og eigendur þeirra skulda eru að hálfu leyti Íbúðalánasjóður með 400 milljarða, fjórðunginn eiga bankarnir, 210 milljarða ef ég man rétt, og afgangurinn liggur að mestu leyti hjá lífeyrissjóðunum. Þróunin á næstu missirum verður með þeim hætti að hlutfall banka eykst upp í líklega 50% af kostnaði Íbúðalánasjóðs og skuldir heimilanna munu aukast.

Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra, það eru eðlilegar skýringar að baki meginþorra skuldanna, húsnæði og svo má lengi telja. Því er hins vegar ekki að neita að íslensk heimili velta í dag á undan sér 60–80 milljörðum kr. í formi yfirdráttarheimilda, kortaskulda, skammtímalána o.s.frv. Þar liggur vandinn, sá alvarlegi vandi.

Það sem hefur vantað á og Frjálslyndi flokkurinn lagt áherslu á er að verkalýðsfélög í þessu landi, sveitarfélög í þessu landi og ríkisvaldið í þessu landi beini af krafti og ákveðni aðvörunarorðum að heimilunum í landinu. Það vantar upplýsingar til handa íslenskum heimilum til að auka sjálfstæði þeirra á nýjum tímum, á nýrri öld. Öll þekkjum við það að kveikja á sjónvarpinu og sjá gylliboð bankanna. Við þekkjum auglýsingar frá ólíkum fjármálafyrirtækjum af ýmsu tagi og þau líta mörg hver afar vel út. Aðvörunarorðin verða að koma frá bæði verkalýðsfélögum, sveitarfélögum og ríkisvaldinu svo að fólk fari ekki fram úr sér á okkar hröðu og erfiðu tímum.