131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:06]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson séum alveg sammála um að það sé engin ástæða, hvorki á þessum markaði, lánamarkaði né öðrum markaði, til að verið sé að níðast á einhverjum sérstökum þjóðfélagshópum, hvort sem það er efnalítið fólk, stórefnað fólk, höfuðborgarbúar, landsbyggðarmenn eða hverjir aðrir. Ég er bara að varpa fram þessum sjónarmiðum til hæstv. ráðherra til umræðu og umhugsunar.

Ég tel alveg rök fyrir því, eins og hv. þingmaður vék hér að, að komið sé til móts við þessa hópa sem ég hygg að Íbúðalánasjóði hafi í upphafi verið ætlað að sinna, þ.e. sinna félagslegri þjónustu gagnvart fólki sem þurfti að sækja sér lánveitingar til að koma þaki yfir höfuðið. Síðan hefur bara, og ég vék að því í ræðu minni, umhverfið allt saman gjörbreyst frá því t.d. að stjórnarsáttmálinn var undirritaður og samþykktur af hálfu okkar sem stöndum að þessari ríkisstjórn. Það hlýtur að leiða til þess að menn taki til umræðu hvort hugsanlega sé eðlilegt að taka þessi mál öll til gagngerrar endurskoðunar eða a.m.k. til umræðu. Þá á ég við þessa auknu samkeppni á húsnæðismarkaði sem orðið hefur með lækkandi vöxtum, hærra lánshlutfalli og greiðari aðgangi að fjármagni.

Við þessar aðstæður, þessar nýju og breyttu aðstæður, hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort ríkið eigi að taka þátt af fullum krafti eins og gert hefur verið, í samkeppni við einkaaðila eða ekki.