131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Rannsóknir og nýting á jarðrænum auðlindum.

374. mál
[10:34]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég greiði að sjálfsögðu atkvæði með því að þetta mál fari til nefndar til umfjöllunar og fái þar þinglega meðferð sem þarf að vera yfirgripsmikil og vönduð. Mig langar til að gera athugasemd í þessari atkvæðaskýringu vegna þess að ég geri ráð fyrir að málinu verði vísað til iðnaðarnefndar Alþingis eins og hæstv. ráðherra óskaði eftir við umræðuna í gær en ég vil þá óska eftir því hér formlega að hv. iðnaðarnefnd Alþingis óski eftir umsögn frá umhverfisnefnd Alþingis þar sem hér er ekki síður um umhverfismál að ræða en mál er lýtur að iðnaðarnefnd.