131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:57]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hug á því að spyrja hv. þingmann hvað það er miðað við núverandi efnahagsástand sem flokkur hans vildi helst gjöra. Hann hafði áhyggjur af því í ræðu sinni að gengið væri mjög nærri heilbrigðisstofnunum, menntastofnunum og ýmsum stofnunum á vegum félagsmála. Ég gat ekki skilið annað á ræðu hans en að hann teldi að auka þyrfti framlög til allra þessara málaflokka. Telur þá þingmaðurinn að of mikils aðhalds sé gætt í ríkisfjármálunum? Eða er hann þeirrar skoðunar að kannski ætti að auka skatta í þjóðfélaginu? Eða hvað er það annars sem hv. þm. telur að helst sé að varast?

Ég veitti því athygli að formaður hans ágæta flokks sagði í sjónvarpi ekki alls fyrir löngu að hann teldi að barátta grunnskólakennara ætti að vera öðrum starfsstéttum hvatning. Telur hann að það sé málið, það sé nauðsynlegt að auka og hækka kaupgjald á Íslandi og það gæti þá helst orðið að ráði til að bjarga þeim sem hann telur að séu í vanda, þ.e. jafnvæginu?

Þegar hv. þm. vitnar í Seðlabankann, er hann sammála aðgerð Seðlabankans að rétt sé að hækka stýrivexti? Telur hann að það komi að gagni? Eða hvert er viðhorf hans ágæta flokks til þeirra vandamála sem við erum að glíma við núna?