131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarækju.

[13:36]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er sannarlega um alvarlegt mál að ræða sem hv. þm. átti frumkvæði að að hér yrði tekið upp. Það er rétt að skipta umræðuefninu í tvennt. Annars vegar er það hörpuskelin og hins vegar rækjan. Þó ástæðurnar fyrir þeim breytingum sem við höfum séð séu hugsanlega tengdar eru þær þó ólíkar. Þegar um hörpuskelina er að ræða er það, að því er virðist vera, samspil á milli hitastigs og sníkjudýra sem í skelinni eru eða hafa komist í skelina. Þegar um rækjuna er að ræða er um afrán annarra tegunda; þorsks, ýsu og jafnvel lýsu að ræða, en breytingar á hitastigi sjávar hafa leitt til meiri ýsugengdar á slóðum rækjunnar og leitt til þess að lýsa er meiri en við höfum áður séð á þeirri slóð. Til viðbótar kemur að það virðist sem afrán ýsu af rækju sé mun meira en áður var talið. Hvers vegna það er er ekki gott að segja, hvort það er vegna þess að menn hafa hreinlega ekki náð því að mæla rétt áður eða hvort ýsan hafi einfaldlega breytt hegðun sinni, það verður hver og einn að meta.

Til þess að svara spurningunum er rétt að fara þarf í sérstakar rannsóknir. Þær hafa reyndar staðið yfir og standa yfir nú þegar en ég geri ráð fyrir því að við verði bætt í í nánustu framtíð.

Hvað varðar skelina hafa farið fram hefðbundnar rannsóknir á veiðislóðinni til þess að meta stöðu stofnsins. Það eru jákvæð merki um að yngri einstaklingar tegundarinnar komist vel á legg, en við eigum eftir að sjá hvernig þeir einstaklingar bregðast við gagnvart sníkjudýrunum þegar þeir eldast. Það eru líka rannsóknir í samvinnu við tilraunastöðina á Keldum til að rannsaka meinafræði sníkjudýrsins og hvernig það hefur áhrif á skelina. Að mínu viti eru það mjög áhugaverðar og góðar rannsóknir sem þar fara fram.

Þó að ég telji að Hafrannsóknastofnun og Keldur séu að gera það sem nauðsynlegt er í þessu hef ég síður en svo neitt á móti því að erlendir sérfræðingar á vegum hagsmunaaðila komi að rannsóknunum, því betur sjá augu en auga. Hins vegar er rétt að geta þess að þegar lagt er upp í rannsóknir sem þessar þurfa þær að hafa tiltekin markmið og tiltekna tilgátu til að sýna fram á með niðurstöðum rannsókna. En ég tel að við séum að gera eins vel og hægt er í þessu tilfelli.

Rannsóknir varðandi rækju hafa sérstaklega snúist um að mæla stofnstærðina og breytingar á stofnstærðinni, en nú eru uppi hugmyndir um hvernig hægt er að bregðast við þessu aukna afráni og hvort á einhvern hátt sé hægt að draga úr því. Á næstu vikum og mánuðum verður unnið frekar úr hugmyndum þar um og vonandi gefa þær af sér verkefni sem hægt verður að fara í á næstunni.

Varðandi það hvort rétt sé að gera breytingar á því hvernig staðið er að úthlutun bóta má svara því játandi. Hins vegar verður að bæta því við að það sem við ræðum um í dag er ekkert að gerast í einu vetfangi. Við höfum fylgst með þessu í nokkurn tíma og höfum jafnvel getað gert okkur í hugarlund að ástand eins og þetta gæti komið upp. Þess vegna hafa bæði verið gerðar breytingar í ráðuneytinu á þeim vinnubrögðum sem þar hefur verið beitt með tilliti til þessa ástands og eins hefur hv. Alþingi gert breytingar á löggjöfinni sem gera okkur auðveldara að bregðast við þeim aðstæðum sem upp eru komnar. Það felst sérstaklega í því að í fyrsta lagi hefur verið beitt bótum vegna fyrirsjáanlegs aflabrests og þeim verið breytt en síðan er nú auðveldara að bregðast við með hinni nýju löggjöf um byggðakvótana, bæði þar sem um varanlegan samdrátt yfir lengri tíma er að ræða og eins þegar skyndilegar breytingar á atvinnulífi í einstökum byggðarlögum verða. Ég vona að þess sjáist merki þegar úthlutað verður í fyrsta skipti samkvæmt nýrri löggjöf.