131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:34]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Svo að það gleymist ekki er rétt að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hlý orð í garð okkar sem starfað höfum í minni hluta fjárlaganefndar. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að vinnubrögðin hafa verið bætt þó að við tökum heils hugar undir orð hæstv. ráðherra um að enn megi bæta þau verulega.

Hugmynd hæstv. ráðherra um skipulag umræðunnar er eitthvað sem við hljótum að gefa okkur tíma til að velta fyrir okkur. En það er ein spurning sem mér býr fyrst og fremst í brjósti til hæstv. ráðherra. Hún varðar þá þjóðhagsspá sem kom frá Seðlabankanum í samanburði við það að fjármálaráðuneytið ætlar að bíða fram í janúar. Væri ekki eðlilegt að endurskoða þær tímaáætlanir í ljósi þess að þar munar býsna miklu að mínu mati þótt hæstv. ráðherra segi að munurinn sé eilítill? Mér finnast 50% skekkjumörk vera meira en eilítið. Væri ekki rétt að endurskoða þennan tímaramma því að það er ljóst, miðað við áætlun Seðlabankans, að mikið hefur breyst frá því í lok september þegar fjármálaráðuneytið gerði áætlun sína?