131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:34]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það hefur þegar vakið athygli á alþjóðavettvangi að íslenska ríkisstjórnin skuli hafa kosið að fara með þessum hætti fram gegn mannréttindaskrifstofu sem fjölmörg félagasamtök standa að og hefur unnið það starf að enginn gagnrýnir. Það fer hins vegar í taugarnar á valdsmönnum að einhver skuli taka sér það vald að hafa eitthvað um gerðir þeirra að segja og þess vegna ráðast þeir núna gegn þessari skrifstofu.

Ég held að þetta sé óvenjulegt mál vegna þess að þetta er ekki aðeins skrýtið innan lands, heldur eru stjórnarmeirihlutinn og ríkisstjórnin að búa til hneyksli sem verður okkur til háðungar og óvirðingar utan lands. Ég segi já.