131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Neyslustaðall.

129. mál
[10:21]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í maí 2001 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um gerð neyslustaðals sem fól m.a. í sér að hæstv. forsætisráðherra var falið að gera könnun á notkun neysluviðmiðanna í nágrannalöndum Íslendinga við ákvarðanir er lúta að fjárhæðum bóta og styrkja í velferðarkerfinu. Enn fremur átti að leggja mat á hvort ástæða væri til að samræma slíkar neysluviðmiðanir hér á landi, en tilgangurinn með flutningi tillögunnar var að unnið yrði að gerð samræmds neyslustaðals sem yrði leiðbeinandi fyrir stjórnvöld sem viðmiðunargrundvöllur við ýmsar ákvarðanir sem tengjast rétti til bóta samkvæmt skatta- og almannatryggingalögum sem og fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögum. Ekki síður átti neyslustaðallinn að vera grundvöllur greiðsluáætlana og greiðslumats hjá lánastofnunum, þar með töldum Lánasjóði íslenskra námsmanna, og við innheimtu vangoldinna opinberra gjalda, t.d. skattaskulda og meðlagsgreiðslna.

Fyrir einu og hálfu ári innti ég þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Davíð Oddsson, eftir framkvæmd á tillögunni. Þá upplýsti þáverandi hæstv. forsætisráðherra að hann hefði vísað málinu í nefnd sem væri að skoða m.a. fjölþrepatekjuskatt. Nefndinni var einnig falið að kanna forsendur þess að vinna upplýsingar um viðmiðunarreglu fyrir mismunandi fjölskyldur sem nota mætti við útreikninga á greiðslubyrði og félagslegum bótum og við mat á breytingum á skatta- og bótakerfinu.

Hæstv. forsætisráðherra taldi þá rétt að bíða eftir niðurstöðu nefndarinnar. Nú liggur hún fyrir, lá fyrir fyrir einu ári, og fram kemur í niðurstöðu nefndarinnar varðandi neyslustaðlana, með leyfi forseta:

„Nefndin telur brýna þörf á viðmiðunarreglum sem nota megi m.a. við útreikning á greiðslubyrði félagslegra bóta o.fl. og leggur til að slík neysluviðmiðun verði unnin.“

Síðan benda þeir á að eðlilegt sé að nýta reynslu Norðmanna og Svía í þessum efnum og sníða viðmiðunarreglurnar eftir þeirri vinnu jafnframt því sem notast verði við þær innlendu rannsóknir um neyslu sem til eru, svo sem neyslukönnun Hagstofunnar og athuganir manneldisráðs. Þeir benda á líka að eðlilegast sé að opinberir aðilar komi að fjármögnun verksins ásamt þeim sem einkum þurfi á slíkum neyslustöðlum að halda.

Ég hef því leyft mér að leggja fyrir hæstv. forsætisráðherra eftirfarandi fyrirspurn:

Hvernig ætlar ríkisstjórnin að framfylgja þingsályktun um gerð neyslustaðals frá maí 2001 og niðurstöðu nefndar fjármálaráðherra um fjölþrepaskatt sem fjallaði um málið og taldi brýna þörf að koma á neyslustöðlum en nefndin skilaði af sér tillögum 3. apríl 2003?