131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Neyslustaðall.

129. mál
[10:24]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að viðskiptaráðherra skipi starfshóp er skuli hafa umsjón með gerð forkönnunar á framkvæmd slíkrar neysluviðmiðunar, hverjir séu kostir þess og gallar miðað við íslenskar aðstæður. Einnig skal metið hvaða kostnaður kunni að fylgja því að viðhalda slíkum grunni þannig að hann haldi áfram að gefa raunhæfa mynd varðandi þá þætti framfærslukostnaðar sem eðlilegt er að séu í íslenskri útgáfu neysluviðmiðunarinnar.

Það hafði ekki verið gert ráð fyrir fjármagni til þessa verks á fjárlögum ársins í ár, en ríkisstjórnin hefur samþykkt að veita 2 millj. kr. af ráðstöfunarfé sínu til að hefja verkið. Í þeim starfshópi sem skipaður er eiga sæti fulltrúar félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, Hagstofu Íslands, auk viðskiptaráðuneytisins. Lögð er áhersla á að starfshópurinn nýti sér þær rannsóknir og þá vinnu sem önnur Norðurlönd hafa lagt í á þessu sviði en SIFO, þ.e. norska neytendarannsóknarstofnunin, hefur boðið fram aðstoð sína við starfið hér á landi.

Það er gert ráð fyrir að með starfshópnum muni starfa sérfræðingur við rannsóknarstofnun háskóla sem faglegur ráðgjafi og starfsmaður og við það miðað að starfshópurinn skili skýrslu til viðskiptaráðherra eigi síðar en 31. desember á næsta ári, þ.e. í árslok 2005.