131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Samgöngur til Vestmannaeyja eftir 1. des. 2004.

[13:55]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Góðar og traustar almenningssamgöngur eru sérstaklega mikilvægar þeim sem búa í eyjasamfélagi og hafa ekki sömu möguleika og aðrir landsmenn á að setjast upp í bíl og aka leiðar sinnar eftir þjóðvegum landsins. Góðar samgöngur eru því lykilatriði fyrir Vestmannaeyjar til að bæjarfélagið geti bætt stöðu sína og eflt atvinnulífið. Atvinnuleysi er mest í Vestmannaeyjum í öllu Suðurk.

Flugsamgöngur eru ekki síður mikilvægar fyrir Vestmannaeyinga en samgöngur á sjó. Um flugvöllinn á Bakka fara t.d. um 30 þús. manns á ári og er hann einn fjölfarnasti flugvöllur landsins. Það tekur ekki nema 5 mínútur að fljúga á milli lands og Eyja. Í júní á næsta ári mun ný flugstöð rísa á Bakkaflugvelli sem mun þjóna þeim vaxandi umferðarþunga sem um völlinn fer.

Landsflug hóf flugrekstur frá Reykjavík til Vestmannaeyja og Hornafjarðar 1. október sl. og er þess vænst að næstu daga muni þeir bæta flugkost sinn um aðra flugvél. Sú staðreynd að Eimskip hefur lagt niður strandsiglingar hefur kallað á breytta og aukna þjónustu Herjólfs. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra Sturlu Böðvarssyni fyrir að hann hefur beitt sér fyrir því að vetraráætlun Herjólfs hefur verið breytt. Verða ferðirnar auknar um tvær á viku og verða því samtals 10. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra hafa ferðirnar aukist um 42% síðustu ár og ber að fagna því.

Nú er verið að gera rannsóknaáætlun um jarðgöng til Eyja. Að öllum líkindum munu þær rannsóknir fara af stað á næsta ári og þingmenn Suðurk. stóðu saman að því að færa fjármuni úr Bakkavegi til þess að þær gætu farið af stað. Ekki voru allir ánægðir með það en við töldum, þingmennirnir allir, að það yrði að ganga fyrir.