131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:39]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil varla þetta andsvar hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég skil það varla. Fyrri hluta andsvarsins talaði hann um barnafjölskyldur og millitekjufólk eins og það væri hluti af þeim 30 þúsund einstaklingum sem mælast undir fátæktarmörkum. (Gripið fram í.) Það eru 11 þúsund eldri borgarar í þeim hópi, virðulegi forseti. Það eru 5 til 6 þúsund atvinnulausir í þeim hópi, og það eru öryrkjar í þeim hópi. Millitekjufólk er ekki hluti af þessum 30 þúsund einstaklingum sem hv. þm. Pétur H. Blöndal var að tala um áðan. Einmitt þetta endurspeglar þann grun minn að hv. stjórnarliðar séu ekki í takt við samfélagið og tíðarandann.

Seinni hluta ræðunnar eyddi hann í að tala um eignarskattinn. Var ég að deila á eignarskattinn í minni ræðu, virðulegi forseti? Ég taldi hann góðra gjalda verðan.