131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[19:52]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi hinar hættulegu aðstæður var það sem ég var að benda á ósköp einfaldlega það að ruðningsáhrifin af stóriðju og skattstefnu ríkisstjórnarinnar eru núna að verða sýnileg í hagkerfinu. Hagfræðingar úti um allan bæ, í Seðlabankanum, hjá KB-banka og öðrum greiningardeildum, meta ástandið mjög krítískt. Það er bara veruleikinn.

Varðandi skattprósentur og annað í þeim dúr er að sjálfsögðu ekkert hægt að alhæfa. Það er alveg ljóst að ef menn fara óhóflega hátt upp með prósentur hefur það fælandi áhrif. Menn flytja tekjurnar til og reyna að komast undan því að greiða slíka skatta. Það er alltaf einhver tilhneiging í gangi í þeim efnum en menn leysa það vandamál ekki bara með að hætta að leggja á skatta. Menn finna sér einhvers staðar einhver hófleg mörk í þeim efnum. Það eru engin rök fyrir því að við getum ekki haft hér í tekjuskatti, í fjármagnstekjuskatti, svipuð hlutföll og önnur lönd. Eru þeir þá bara svona miklir asnar í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi, ha? Eru menn svona miklir vitleysingar í Kanada, Hollandi, Bandaríkjunum, með fjármagnstekjuskatt? Er það bara Ísland sem hefur fundið réttu formúluna, 10%? Ef við tökum fjármagnstekjuskattinn — og við erum að leggja til hækkun á hlutfallinu þar, úr 10% í 18% og við teljum það fullkomlega innan allra öryggismarka í þeim efnum — er staðreyndin auðvitað sú að það er engin ástæða til að ætla að það verði einhver stórkostlegur fjármagnsflótti eða dragi úr tekjum af þeim sökum (SKK: Líttu á Svíþjóð.) þegar hlutfallið í kringum okkur er víðast hvar á bilinu 20% og upp í 40%, það er bara veruleikinn. Við værum áfram með eitthvert lægsta fjármagnstekjuskattshlutfall í heimi þótt við færum í 18%.

Ef við tökum aftur tekjuskattinn, ég var að fara yfir það í ræðu minni að við verðum næstum 20 prósentustigum lægri á hæstu laun ef breytingar ykkar ganga allar fram, herra forseti, eins og hv. þingmaður og aðrir tala hér fyrir. Værum við þá í einhverri stórkostlegri hættu þótt við gengjum ekki alveg svona langt? Þegar verið var að lækka skattana á fyrirtækjum úr 30% niður í 18% útilokuðum við ekki einhverja lækkun en við töldum að svona 26–28% væri rýmilegt.