131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[20:59]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er litlu við þetta að bæta. Við sjáum hlutina í ólíku ljósi. Ég hef séð umræðuna í dag eins og ég hef lýst henni og hv. þm. Kjartan Ólafsson hefur séð hana frá sínum sjónarhóli. Það er alrangt að hér hafi Samfylkingin verið að flokkast í einhverja fyrri stjórnmálaflokka. Ég tók eftir því að í dag t.d. var veist að hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttir, fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins, fyrir þróun mála árunum 1991–1995 sem reyndar var fyrsta kjörtímabil Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn. Ég tók alveg eftir því að þar var notuð sú aðferð að veitast að þingmanninum út frá því að það kjörtímabil hefði verið vont eða að þá hafi verið dregið úr félagslegri þjónustu. Það var ekkert verið að skoða hvernig kjörtímabilið á undan var þegar aðrir flokkar stjórnuðu. Við tökum eftir því að menn flokka gjarnan málflutning sinn eftir því sem hentar og ég var aðeins að draga það fram. Samfylkingin hefur verið alveg einörð í því að hún tekur undir með Sjálfstæðisflokknum að það sé svigrúm fyrir skattalækkanir. Samfylkingin tekur undir það. Vinstri grænir taka ekki undir þann málflutning. Vinstri grænir vilja ekki lækka skatta. Við viljum fara aðra leið en Sjálfstæðisflokkurinn af því okkur finnst meiri jöfnuður í því en flatri tekjuskattslækkun, með þeim útreikningum sem liggja fyrir í skjali fjármálaráðherra frá því fyrir kosningarnar 2003.