131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[19:49]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég átti við með því að ég gæfi ekki mikið fyrir trúnað af þessu tagi er að þegar verið er að fjalla um sameiginlegar eigur okkar, og ég spyr: Er staða málsins eitthvað verri nú eftir að Alfreð Þorsteinsson er búinn að upplýsa hvað til stóð? Ég átta mig ekki á því. Ég held að það sé miklu skárra að menn viti hvað er á ferðinni og að menn geti þreifað á og fundið fyrir þeim viðbrögðum sem hafa orðið við fréttunum. Ég held að stjórnvöld þurfi stundum að veita þeim upplýsingar sem eiga aðild að málinu með ýmsum hætti, sem þiggjendur þjónustu t.d. af Rarik og Orkubúi Vestfjarða og sem eigendur að Landsvirkjun. Auðvitað eiga menn að vita það ef til stendur að sameina svona fyrirtæki.

Ég hlustaði á Alfreð Þorsteinsson segja frá málinu þannig að það fór a.m.k. ekki fram hjá mér að hann var að upplýsa þjóðina um hvað hafi staðið til og það væri komið uppihald í þær viðræður. Ég sé ekki að ef einhver fótur var fyrir því og vilji, sem reyndar bæði hann og hæstv. ráðherra hafa svo lýst yfir að sé fyrir hendi, að leysa Reykjavíkurborg og Akureyri út úr Landsvirkjun, að það eigi ekki að vera alveg jafnhægt þó að þjóðin viti að það standi til.

Ég held að það sé ágætt fyrir ráðherrann að vita líka af því frá hinum ýmsu aðilum sem áttuðu sig allt í einu á því að sameina ætti þessi fyrirtæki, þó svo að ég geti ekki áttað mig á því að það þurfi endilega að vera hluti af viðræðunum um að leysa Reykjavíkurborg og Akureyri út úr Landsvirkjun.