131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[16:38]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það ekki svo að við sem leggjum hér fram breytingartillögur séum beinlínis að leggjast gegn því að málið fái framgang sem lög, heldur leggjumst við gegn því að þetta gangi mjög hratt fyrir sig. Við erum með frestunarákvæði og síðan eru önnur ákvæði sem við höfum verið að ræða hér, eins og að kostnaðurinn sé ekki færður yfir á aðra sem ekki nota kerfið.

Við erum nú að leggja þetta til, hæstv. samgönguráðherra, í mestu vinsemd og við viljum ráðherranum ágætlega vel með þessu. Ég held að ráðherrann ætti að taka viljann hjá okkur fyrir verkið. Við vorum nefnilega með svona frestunartillögu varðandi raforkulögin og ég held að ríkisstjórnin hefði farið betur út úr því ef hún hefði hlustað á það og tekið sér tíma til að vinna það mál. Ég vona satt að segja að það sem verið er að gera hér verði ekki annað eins fótakefli og virðist vera í raforkumálunum (Forseti hringir.) þar sem raforkukostnaður lendir dýrt á þeim sem eru jafnvel með rafmagnslínurnar yfir húsunum sínum.