131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Gerð stafræna korta.

164. mál
[14:16]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna orðum hæstv. ráðherra vegna þess að ég sé ekki ástæðu til að halda að hæstv. ráðherra hafi uppi þá stefnu að leggja starfsemina af — eins og kom fram í tillögum til fjárlaga, því það var ekkert annað fram undan en að hætta þessu starfi sem þarna var á grundvelli þeirra fjárveitinga sem þar var lagt til að yrðu til ráðstöfunar. Það er þess vegna mjög mikilvægt að vita að hæstv. ráðherra telur nauðsyn á að halda starfinu áfram.

Það er auðvitað áhyggjuefni ef stofnunin hefur ekki möguleika á að standa þannig að verki að þetta nýtist að fullu og hægt sé að halda gögnunum í því horfi sem best henta þeim sem þau þurfa að nota. En það er eitthvað sem kannski stendur til bóta. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að hæstv. ráðherra er hér að eyða þeirri óvissu sem var yfir því að starfseminni yrði haldið áfram. Það er nefnilega uppi gagnrýni á þetta verkefni frá aðilum í samfélaginu og efasemdir um hvort á verkefninu sé virkilega þörf. En hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki tekið þær röksemdir gildar og telur að starfsemin eigi að halda áfram og kortagrunnurinn eigi að verða til í framtíðinni og ég fagna því.