131. löggjafarþing — 62. fundur,  27. jan. 2005.

Skýrsla iðnaðarrh. um framkvæmd raforkulaga.

[17:32]

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Það eru aðeins nokkur atriði sem ég vil leggja meiri áherslu á en ég gerði í fyrri ræðu minni, en ég vil þó sérstaklega taka undir það og get verið sammála hæstv. iðnaðarráðherra um að auðvitað hefði verið æskilegt að við hefðum getað rætt hér ýmsa aðra þætti. En að mínu mati er eðlilegt að við ræðum þennan gjaldskrárhækkunarþátt núna vegna þess hvað hann hefur verið mikið í umræðunni og vegna þess að hann er að dynja á okkur núna.

Ég vænti þess að hæstv. iðnaðarráðherra geri sér grein fyrir að hún á eftir að flytja Alþingi skýrslu um ýmislegt annað í framkvæmdinni þegar fram líða stundir og við eigum eftir að ræða hér um þessi mál vegna þess að um það var talað í iðnaðarnefnd og settar voru inn ýmsar nefndir og annað slíkt, t.d. skýrsla til Alþingis, einmitt vegna þess að við vissum að það ætti margt eftir að gerast.

En sú holskefla sem nú kemur, kom mönnum algjörlega í opna skjöldu eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, sagði í ræðu sinni og það er það sem við erum að ræða nú.

Mig langar að fá betri svör og ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra þegar hún kemur hér upp og fer yfir umræðuna, um einkaleyfisþáttinn, flutning og dreifingu, hvernig það geti gerst núna þegar 1. janúar er nýliðinn að þá komi Orkuveita Reykjavíkur og tilkynni gjaldskrá sína 3,60 kr. Orkustofnun á að hafa tvo mánuði til að fara yfir þessa útreikninga. Segjum nú svo að eftir tvo mánuði komi Orkustofnun og segi: Nei, inni í þessum útreikningum ykkar eru ýmsar tölur og ýmislegt annað sem á ekkert skylt við raforkudreifingu og -sölu — og það verði því tekið út og verðið lækkað. Ég er bara að benda á það sem því miður er allt of oft háttur okkar Íslendinga að við erum alltaf að vinna að þessum málum á síðustu stundu. Það er auðvitað óásættanlegt og það er hluti af því vandamáli sem við stöndum frammi fyrir nú að þrátt fyrir að orkufyrirtækin hafi lagt fram þessa útreikninga þá fengum við sem sátum í iðnaðarnefnd Alþingis, sem var að vinna með frumvarpið, aldrei að sjá þá. Auðvitað eru þetta óþolandi vinnubrögð og það er það sem við erum að bíta úr nálinni með núna.

Þegar Orkuveita Reykjavíkur kemur með 3,60 þá gerðist þetta sem ég nefndi hér áðan, Rarik varð að hækka kwst. um 20 aura til að geta sótt niðurgreiðsluna til ríkissjóðs. Þar af leiðandi var hækkað eða minnkað það sem er í þessum potti.

Nú er það svo, virðulegur forseti, að það er auðvitað mjög undarlegt að dreifing raforku á höfuðborgarsvæðinu frá Orkuveitu Reykjavíkur sé dýrasta dreifingin í landinu, miklu dýrari en hjá Rarik. Nú trúi ég því ekki að þetta sé vegna arðsemissjónarmiðanna og því má í rauninni spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Hvert er arðsemismarkmið Rariks núna þegar þetta er sett upp eins og hér er gert? Þetta er mjög alvarlegt mál.

Varðandi breytinguna á kwst. á þakinu, kom annað atriði upp í huga minn áðan: Það eru tvö ár síðan nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar kom með tillögu um að hækka þetta upp í 50 þúsund kwst. Nú á að að lækka það. Mig langar að spyrja um eitt, vegna þess að nú vantar peninga í þennan niðurgreiðslusjóð: Verður það nokkuð á kostnað styrkja til hitaveituframkvæmda á köldum svæðum, sem við vorum að breyta hér fyrir áramót að mig minnir úr fimm árum í átta? Er nokkur hætta á eitthvað muni skerðast í leit hæstv. iðnaðarráðherra að peningum hist og her til þess að minnka þann skell sem hér er?

Ég ítreka það, virðulegi forseti, það er ekki ásættanlegt markmið að mínu mati að 5–10% hækkun dynji á íbúum á landsbyggðinni vegna þessara breytinga. (Gripið fram í.) Það verður ekki unað við það.