131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Vatnalög.

413. mál
[15:48]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að nokkrar líkur séu á því að miðað við málflutning hv. þingmanns telji hann bara litla þörf á iðnaðarráðuneytinu yfirleitt. Mér hefur heyrst að það væri þannig (Gripið fram í.) með fleiri hv. þingmenn því að það kemur hér mál eftir mál til umfjöllunar á hv. Alþingi og þá kemur alltaf þessi fullyrðing frá nokkrum hv. þingmönnum að þetta mál eigi miklu betur heima í einhverju öðru ráðuneyti. Ég náttúrlega mótmæli því harðlega vegna þess að við erum að nýta þessa auðlind okkar. Við eigum gnægð vatns, og þjóðir heims horfa svo sannarlega til Íslands öfundaraugum. Svo tala hv. þingmenn hér eins og það eigi ekkert að nýta vatnið, það eigi bara að vernda, heyrist mér. (Gripið fram í.) Þess vegna eigi þetta allt saman að heyra undir umhverfisráðuneytið (Gripið fram í: … vernda …) en því er ég ekki sammála, með fullri virðingu fyrir umhverfisráðuneytinu.

Ég fór yfir það hér áðan hvaða önnur lög koma til tals þegar fjallað er um vatn. Það eru ekki fá önnur lög. Við erum ekkert að fara inn á vatnssvið náttúruverndarlaga. Svo sannarlega ekki.

Svo gerir hv. þingmaður lítið úr Orkustofnun eins og að þar sé ekki fólk sem geti starfað að þessum málum. Þar er t.d. maður að nafni Sveinbjörn Björnsson, fyrrverandi rektor, sem hefur einmitt farið með umhverfisþátt Orkustofnunar. Það er eins og þessi maður sé ekki fær til þess miðað við þau orð sem hér hafa verið látin falla. Ég mótmæli þessu harðlega.