131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[14:55]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á því sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði úr þessum ræðustóli, eitthvað í þá veru að tillagan væri afar óskýr og óljós og markaði ekki nógu vel markmiðin. Það segir jú í tillögunni að skipa skuli þriggja manna nefnd sem hafi það verkefni að semja frumvarp til laga um fjárhagslegan aðskilnað milli reksturs útvegs annars vegar og fiskvinnslu í landi hins vegar. Síðan segir um það sem menn vilja marka inni í þessum lögum:

„Lögunum verði ætlað að skapa skilyrði til eðlilegrar verðmyndunar á öllum óunnum fiski á markaði og stuðla að heilbrigðum og gegnsæjum viðskiptaháttum í fiskviðskiptum, og koma þannig á eðlilegum samkeppnisskilyrðum á því sviði.“

Ég held að þetta sé nokkuð skýrt orðað. Og miðað við það sem tillagan hljóðar upp á að verði sem vegvísir fyrir nefndina til að vinna málið er ekki hægt að draga aðra ályktun af því en að við viljum í fyrsta lagi fjárhagslegan aðskilnað, það er liggur algjörlega fyrir, og við lítum einnig svo á að fjárhagslegur aðskilnaður eigi að stuðla að eðlilegri verðmyndun og það geti orðið til þess að skapa skilyrði til þess að allur óunninn fiskur á Íslandi verði seldur á markaði.

Þetta held ég að öllum hljóti að vera ljóst og þar af leiðandi erum við auðvitað að segja að þau skilyrði sem núna ríkja í fiskviðskiptum séu ekki eðlileg og það sé eðlilegt að skilja þarna á milli.