131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:32]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki kunnugur því hvort eitthvert eitt fyrirtæki hefur fengið hærra verð á tilteknum sjávarafla en önnur. Hitt veit ég að stóru fyrirtækin flytja út ferskan fisk á markað og standa þannig í samkeppni, t.d. við Kínverja og við aðra matvöruframleiðendur. Þetta er auðvitað ekki kjarni málsins.

En hitt vil ég spyrja hv. þingmann um, sem mér finnst vera kjarni málsins: Er það svo að Samfylkingin sem heild, þingflokkur Samfylkingarinnar, standi á bak við tillöguflutning hv. þm.? Má líta svo á að allir þingmenn Samfylkingarinnar, þar á meðal hv. þm. Einar Már Sigurðarson og hv. þm. Kristján L. Möller, séu sammála þessum tillöguflutningi? Þeir eru ekki í salnum í dag og ekki hægt að spyrja þá en það væri gott að fá að vita hvort svo sé. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson lýsti því yfir að hans flokkur stæði á bak við tillögugerðina.