131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:34]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram sem mig raunar grunaði, að Samfylkingin stendur ekki á bak við þessa þingsályktunartillögu enda varla von til þess, eins og hún er fram lögð og varla von til þess, eins og hv. þm. lýsir afleiðingum hennar og framkvæmd ef samþykkt yrði. Enda kom það fram fyrir síðustu alþingiskosningar að frambjóðendur Samfylkingarinnar í mínu kjördæmi, sérstaklega þó hv. þm. Einar Már Sigurðarson, töluðu ekki á sömu nótum og Samfylkingin í sjávarútvegsmálum. Menn satt að segja lítt hrifnir yfir því að forsætisráðherraframbjóðandinn, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, skyldi slysast til Austurlands og opna munninn um sjávarútvegsmál.

Ég hygg að hér sé lítill minnihlutahópur Samfylkingarinnar staddur í salnum og svo mun það vera.