131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Aldraðir á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

414. mál
[13:06]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra:

Hve margir aldraðir eru á dvalarheimilum annars vegar og hjúkrunarheimilum hins vegar? Hve margir deila herbergi með öðrum, ef hjón eða sambýlisfólk er frátalið, og hve margir eru í einkaherbergjum?

Í öðru lagi: Stendur til að endurskoða löggjöf um málefni aldraðra og banna að aldraðir deili herbergi með öðrum, sé ekki um maka eða sambýling að ræða?

Það sem liggur að baki því að ég óska eftir þessum upplýsingum er að á haustdögum fór fram töluverð umræða um málefni aldraðra, og mjög vönduð umfjöllun um það mál var á morgunvakt Ríkisútvarpsins og fleiri fjölmiðlum. Meðal þess sem að baki liggur, til að nefna nokkrar tölur málinu til grundvallar, voru árið 2003 60 ára og eldri um 10% þjóðarinnar, þeir sem voru 80 ára og eldri voru 3% þjóðarinnar þannig að við erum að tala um þjóðfélagshóp sem er stór og fer ört stækkandi, enda stórar kynslóðir sem nálgast núna miðjan aldur og efri ár. Þetta snýst allt að mínu mati, virðulegi forseti, um mannréttindi og að mínu viti er alls ekki nægilega vel um þessa hluti búið. Fram hefur t.d. komið að um þriðjungur þeirra 1.240 einstaklinga sem eru á dvalar- og hjúkrunarheimilum í Reykjavík einni séu í tvíbýli. Því vildi ég kalla fram heildstæðar upplýsingar um það hvernig staðan væri.

Oft koma upp sögur og frásagnir eldra fólks um að það verði fyrir ákveðinni niðurlægingu inni á stofnunum sumum og stundum þótt vitaskuld séu þessar stofnanir góðar, með gott starfsfólk og til fyrirmyndar. Niðurlægingin felst m.a. í því að bætur þess renna hljóðlega og sjálfkrafa beint til stofnunar og fólkið þarf að sækja sérstaklega um það sem kallað er vasapeningur sem er um 20 þús. kr. á mánuði. Það er víða pottur brotinn í þessu og að mínu mati er alls ekki nægjanlega vel um þessa hnúta búið. Við eigum að stefna að því á mjög skömmum tíma að aldraðir þurfi ekki að búa við það nema þeir óski eftir því að deila herbergi á hjúkrunar- eða dvalarheimilum.

Þetta snýst um sjálfræði og virðingu fyrir einkalífi fólks. Þetta er þversögn í nútímanum þar sem að mínu viti á að koma til öflug heimaþjónusta með öflugum þjónustukjörnum þannig að fólk geti verið sem allra lengst heima og notið góðrar þjónustu. Ég veit að hæstv. ráðherra deilir þessari skoðun með mér en ferillinn er oft langur og þungur og aldurssamsetningin slík að þetta kallar á nýja stefnu í málefnum aldraðra þar sem við höfum að leiðarljósi virðingu fyrir sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti einstaklingsins, að einstaklingar fái að lifa við öryggi, aldraðir geti haldið reisn sinni, verið í heimabyggð og virkjaðir til þátttöku í samfélaginu án þess að gengið sé á einkalíf þeirra og sjálfsögð mannréttindi.