131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga.

355. mál
[15:28]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Frú forseti. Ég get fullvissað þingmenn um að unnið er að þessu með það að markmiði að þessar 150 kennslustundir nýtist þeim sem þær hljóta og einnig að búið verði þannig um hnúta að menn geti stundað þetta nám án þess að það verði þeim of dýrkeypt í sjálfu sér þegar litið er til kostnaðar. Hins vegar eru ekki í neinum lögum heimildir til að greiða þennan kostnað úr ríkissjóði. Þegar lögin voru sett var gengið að því sem vísu að menn yrðu að afla sér fjár til þess að standa undir kostnaðinum sjálfir. Það hefur verið síðan gengið til þess eins og þingmenn vita að stórefla starfsmenntasjóði. Ég veit að þeir koma að þessum málum og fjölmargir aðrir koma líka að því að fjármagna þetta, en ríkið á að sjá um að umbúnaðurinn sé viðunandi og það er það sem við erum að vinna að og verið er að vinna að því í samvinnu við Kennaraháskóla Íslands.

Að sjálfsögðu á inntakið í náminu, þessar 150 kennslustundir, að vera þess eðlis að sómi sé að því. Menn geta líka velt því fyrir sér hvort 150 stundir séu nægar. Við sjáum að í öðrum löndum hafa menn farið eins og í Þýskalandi í 600 stundir og í enn öðrum löndum er krafist enn lengra náms í tungumáli til að menn fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru að þessu leyti.

Þetta eru því allt skref sem þarf að stíga og velta fyrir sér. Aðalatriðið er að við erum sammála um það hér að leggja beri áherslu á þennan þátt. Það er mikilvægt. Síðan eigum við í sameiningu að vinna að því að gera sem flestum kleift að stunda þetta nám og tryggja að inntakið í náminu sé þess eðlis að það sé þess virði að stunda það.