131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

.

442. mál
[11:15]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þá skýrslu sem hér hefur verið fram reidd um umfang skattsvika. Ég held að það sé alveg á sínum stað að reglubundið sé farið yfir það hvernig þau mál standa hjá okkur og reynt að lesa í það hvernig þessi mál eru að þróast með tilliti til breyttra aðstæðna, þar á meðal og ekki síst breyttra ákvæða um skatta, breyttra skatthlutfalla og annarra slíkra hluta.

Mér sýnast meginniðurstöður þessarar skýrslu vera þær að skattsvik almennings eru síst að aukast hér á landi. Ef eitthvað er eru þeir hlutir heldur á góðu róli. Það er sömuleiðis ánægjulegt að sjá að ekki virðist vera um að ræða aukið undanskot í virðisaukaskatti. Skipulögð skattsvik og tilraunir til að sniðganga skattalög þegar í hlut eiga fyrirtæki og þeir aðilar sem meira hafa umleikis eru hins vegar ekki á undanhaldi, því miður. Þar eru að koma til sögunnar jafnvel nýjar leiðir eins og hér er bent á í helstu niðurstöðum nefndarinnar.

Þetta er afar athyglisvert og alveg sérstaklega í ljósi þess endalausa söngs sem hér er gjarnan uppi hafður um nauðsyn þess að lækka allar skattprósentur til þess að draga úr skattsvikum. Því er mjög gjarnan haldið fram, og sérstaklega af talsmönnum hægri sjónarmiða í skattamálum, að tekjur aukist jafnt og þétt eftir því sem skattprósentur lækki vegna þess að þá fari menn að gefa þær upp til skatts sem ella sé skotið undan. Hvernig ætti það þá að vera, frú forseti, ef þetta væri hin almenna regla og hún héldi, þetta væri svona í reynd? Jú, þá ættu auðvitað skattsvikin að vera þeim mun alvarlegri og umfangsmeiri sem prósenturnar eru hærri. Þá ætti þessi viðleitni sem sagt að vera mun meiri hjá almenningi en fara hraðminnkandi hjá fyrirtækjum og stórefnamönnum því að það er á þeim sem skattarnir hafa verið lækkaðir mest að undanförnu.

Þetta er hins vegar öfugt. Og hvar eru mennirnir? Hvar eru talsmenn hægri sjónarmiðanna í skattamálum með rökin sín þegar þeir standa frammi fyrir niðurstöðum þessarar skýrslu? Það er sem sagt ekki skattprósentan sem er alfa og omega þess hvort menn standa skil á sköttum sínum eða ekki. Auðvitað hefur það áhrif, það vitum við, en það er allt of mikil einföldun að halda því fram eins og hér hefur oft verið gert að þetta vandamál hverfi sjálfkrafa með því að lækka bara prósenturnar.

Það er athyglisvert að rýna hér líka í tillögur skýrsluhöfundanna hvað þetta varðar. Þeir minnast ekkert á þessar prósentur sem eitthvert úrslitaatriði í tillögum sínum. Megintillögur þeirra eru þær að það þurfi sérstaklega að vinna að því að koma í veg fyrir að skattalög verði sniðgengin með því að íslenskir skattaðilar nýti sér skattaparadísir og ýmiss konar lágskattasvæði til að koma undan tekjum sem sæta eiga skattlagningu hér á landi.

Þetta líkar mér vel að heyra en það undrar mig þeim mun meira að ekkert af þessu virðist hafa komist til skila til þeirra sem helst þyrftu að taka mark á því. Ég er hérna með í höndunum boð um að sækja viðskiptaþing á þriðjudaginn í næstu viku. Hvert skyldi vera meginþema þess þings? Það er „15% landið Ísland“. Já, 18% er ekki nóg. Nei, 15%, segja þeir. Og helst vilja þeir fara neðar og nefna Írland í þeim efnum. Eins og venjulega koma sjálfsagt rökin um að þetta muni draga svo mikið úr skattsvikum og tekjurnar jafnvel aukast með því að færa þetta niður um 3%. Það gengur þvert á meginboðskapinn, meginniðurstöðurnar út úr þessum skýrslum.

Hafa þessir menn ekkert lært? Hvar er nú hv. þm. Pétur H. Blöndal, sérstakur leiðtogi ríkisstjórnarinnar í skattamálum, þar á meðal hugmyndafræðingur Framsóknarflokksins, samanber það að Framsóknarflokkurinn skrifaði upp á skattstefnu hans hér fyrir áramótin með atkvæðum sínum þegar skattalækkunarprógrammið var hér lögfest? Nei, frú forseti, ég held að það sé alveg sérstaklega þarft að fara í gegnum umræður um þetta og ræða málið í ljósi þessara aðstæðna, niðurstaðna skýrslunnar og þróunar í íslensku viðskiptalífi að undanförnu.

Ég vona að einhvers staðar komist rök í gegnum hinar þykku skeljar og að menn fari að draga eitthvað úr jarminu um lágskattaparadísina, skattasmuguna sem hér eigi að búa til

Ég ætla að eyða nokkrum mínútum í að rifja upp söguna af alþjóðlegu viðskiptafélögunum. Megi það verða mönnum einhver lærdómur í þessum efnum. Það er ákaflega gagnlegt fyrir menn að fara yfir það mál og þótt ég noti kannski obbann af ræðutíma mínum í það hér held ég að honum sé vel varið.

Það var þannig að á löggjafarþinginu 1998–1999 kom fram frumvarp til laga um alþjóðleg viðskiptafélög. Það var ekkert smáræði á bak við það frumvarp, að því stóð sérstakur starfshópur sem þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, hafði sett af stað. Meginhugmyndafræðingur hans í þeim efnum eins og fleirum, Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, lagði til fílósófíuna. Gott ef hann skrifaði ekki heila bók um það hvernig Ísland yrði ríkasta land í heimi með því að gera út á það að laða til sín starfsemi með nógu lágum sköttum. Það var ekki léttvigtarlið sem sett var í starfshóp til að semja frumvarpið um alþjóðleg viðskiptafélög, frumvarp sem byggði á þessari hugmyndafræði. Muna menn hverjir voru í verkefnisstjórninni? Það voru Valur Valsson bankastjóri, tilnefndur af forsætisráðuneyti, Tryggvi Jónsson endurskoðandi, frá fjármálaráðuneyti, Jóhannes Geir Sigurgeirsson — man einhver eftir honum? — tilnefndur af utanríkisráðuneyti þar sem þá var Halldór Ásgrímsson — sami maður er nú stjórnarformaður Landsvirkjunar — Halldór J. Kristjánsson, tilnefndur af viðskiptaráðuneyti — hann hefur eitthvað komið við sögu í bankamálum — Brynjólfur Bjarnason forstjóri, tilnefndur af sjávarútvegsráðuneyti — er hann ekki einhvers staðar í símamálunum núna? — og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Verslunarráðsins. Þetta voru silkihúfurnar sem lögðu drög að frumvarpinu um alþjóðleg viðskiptafélög.

Frumvarpið var síðan flutt í þinginu og kom til umræðu þann 3. október 1999. Þá sagði ég m.a. þetta um efni frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Satt best að segja held ég að málaflutningur hæstv. ríkisstjórnar hafi fengið allt of litla athygli því að hér er í raun og veru á ferðinni nokkuð stórt mál að mínu mati, þ.e. spurningin um það hvort við Íslendingar eigum að fara inn á þá braut núna rétt fyrir aldahvörfin að fara að bjóða erlendum alþjóðlegum viðskiptafélögum sérstök vildarkjör, reyna að lokka til okkar slíkan atvinnurekstur á grundvelli þess að bjóða þeim til muna hagstæðari skattskilyrði og önnur starfsskilyrði en innlendu atvinnulífi eða atvinnulífi almennt og blanda okkur þar með í hóp þeirra ríkja, ekki síst frá Karíbahafinu og víðar, sem hafa einkum verið að gera út á þess háttar starfsemi.“

Ég sagði enn fremur, frú forseti:

„Það er kannski ástæða til þess að fara yfir það með hv. þingmönnum hvað hér á að bjóða. Hafa menn farið yfir það hvaða kjör þessi sérstöku gælufyrirtæki ríkisstjórnarinnar, alþjóðleg viðskiptafélög, eiga að fá? Þau eiga að borga heil 5% í tekjuskatt […]“

Líður svo tíminn. Reyndar sagði ég svo í lokin þarna — kannski er ástæða til að rifja það upp — að ég hefði enga sannfæringu fyrir því að skynsamlegt væri að knýja á um þessa lagasetningu, hún væri of illa undirbúin til þess. Auk þess hafði ég grundvallarefasemdir um að Ísland ætti að leggja út á þessa braut og menn mættu ekki vera svo fastir í frösunum sem þeir lærðu á uppeldis- og uppvaxtarárum sínum í stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins að dragnast með slíkar forneskjur inn í nýja öld.

Líður svo tíminn. Á þinginu 2003–2004 kom fram lítið frumvarp. 2. gr. þess var svohljóðandi:

„Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004.

Lög nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög, falla úr gildi 1. janúar 2008.“

Efni þessa frumvarps var það að hætta útgáfu starfsleyfa til alþjóðlegra viðskiptafélaga og fella allt móverkið niður frá og með árinu 2008. Hver var ástæðan? Jú, hún var hin glæstu áform um hin miklu umsvif sem áttu að verða upp á 25–100 milljarða króna veltu á ári, beinar skatttekjur upp á 12–100 millj. á ári og óbeinar á bilinu 150–1.500 millj. á ári. Hvað kom út úr því, hver var raunveruleikinn fjórum árum síðar? Hann var sá að beinar skatttekjur samtals allt tímabilið voru 10,7 millj. kr. og að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, kærði íslensk stjórnvöld fyrir óleyfilegan ríkisstyrk í formi þessara vildarkjara sem þarna átti að bjóða hinum alþjóðlegu viðskiptafélögum, aflandsstarfseminni sem þarna átti að fara að lokka til Íslands.

Ég gat auðvitað ekki á mér setið að fara aðeins yfir hin glæstu áform frá fyrri tíð og hvaða gjaldþrot þessi hugmyndafræði beið þarna, þetta sérstaka gæluverkefni fyrrverandi forsætisráðherra Davíðs Oddssonar, hugmyndafræðings hans, Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, Verslunarráðsins og allra þessara silkihúfna, fyrst og fremst úr Sjálfstæðisflokknum, auðvitað með nauðsynlegri hjálp frá Framsókn eins og venjulega, sem átti að verða rétt fyrir aldahvörfin 2000.

Málið er ekki búið enn því að í sjónvarpsfréttum fyrir nokkrum dögum kom fram að nú eiga íslensk stjórnvöld yfir höfði sér dóm. ESA er búið að senda málið áfram til EFTA-dómstólsins vegna þessara ólöglegu ríkisstyrkja sem þarna átti að bjóða upp á. Þetta var hugmyndafræðin í skattamálum og svona kom þetta út. Er ekki gaman fyrir hæstv. fjármálaráðherra að eiga þessa arfleifð í farteskinu? Er hann ekki stoltur af henni? Svo fáum við hér ágæta skýrslu þar sem aðalhætturnar eru nákvæmlega þessar, þar sem verið er að benda á hætturnar sem eru í því fólgnar fyrir íslenskt samfélag að smugur af þessu tagi verði til þess að menn fari með alls konar brögðum og brellum í gegnum alþjóðleg fjármálaviðskipti að lokka til sín fyrirtæki og menn komi þannig sköttunum undan, t.d. með málamyndabúsetu erlendis, málamyndaskráningu fyrirtækja erlendis eða færslu hagnaðar til erlendra dótturfyrirtækja. Þetta er svo sem ekkert nýtt í sjálfu sér, menn halda alltaf að þeir séu að finna upp hjólið. Það var tekist á um hækkun í hafi fyrir einum 25 árum og hvað var þar á ferðinni? Nákvæmlega sömu tilburðir erlends auðhrings um að hafa skatta af íslensku samfélagi með því að falsa faktúrur og láta vörurnar hækka í hafi þannig að reksturinn hér uppi á Íslandi skilaði engum hagnaði og engar skatttekjur kæmu íslensku samfélagi til góða.

Ég verð að segja að mér finnst hlálegt að Verslunarráð Íslands skuli ekki hafa annað þarfara fram að færa á viðskiptaþingi en að fara enn upp með sama sönginn um nauðsyn þess að færa enn frekar niður skattprósentur á Íslandi.

Það virðist vera sem menn berji alltaf höfðinu við steininn. Það er alveg sama hvaða gögn þeir hafa í höndunum, þeir eru svo fastir í gömlu hugmyndafræðinni sem þeir tileinkuðu sér á stuttbuxnaárum sínum að þeir komast ekki út úr henni.

Ég held að hæstv. fjármálaráðherra ætti líka að vera farinn að átta sig á því að hann fær að finna til tevatnsins í málum sem eru mjög hliðstæðs eðlis þar sem eru skattamálin við Kárahnjúka. Hæstv. fjármálaráðherra hefur hér í tvígang svarað fyrirspurnum frá ræðumanni og hv. þm. Jóni Bjarnasyni þar sem hann reynir að halda því fram að allt sé í fína lagi þótt allir viti að svo er ekki. Þar er angi af sama vandamáli sem er starfsmannaleigur sem eru að reyna að komast upp með það að skrá ekki starfskraft sinn með eðlilegum hætti í því landi þar sem starfsemin fer fram og borga af þeim skatta og skyldur. Það blasir alveg við og það vita allir, nema þá fjármálaráðuneytið, að þarna hafa verið stórkostleg frávik frá því að allt sé með felldu.

Það er komið ágætlega inn á vandamálin sem tengjast aflandsþjónustu, eins og hún er kölluð í skýrslunni, og þau vandamál sem þar er við að glíma, svokölluð „off shore companies“. Hvað hét þetta í frumvarpinu fína, silkihúfnafrumvarpinu frá 1999? Hvað hét það í greinargerðinni þegar verið var að selja mönnum hversu snjallt þetta væri? Jú, það hét einmitt „off shore“ starfsemi, því var skotið inn í sviga í greinargerð með frumvarpinu svo menn vissu hvað um væri að ræða.

Svo vil ég segja um þessa hluti að ég held því fram að við höfum rétt séð toppinn á ísjakanum, líka hvað hin skattalegu mál varðar, ef þjónustutilskipun Evrópusambandsins gengur í gildi og við verðum þvinguð til að taka hana upp með þeim hætti sem allt stefnir nú í. Þá fyrst fáum við til tevatnsins, þá fyrst þarf fjármálaráðherra á guðs hjálp og góðra manna að halda sem hann lýsti hér eftir. Ég er út af fyrir sig sammála því, ég held að menn ættu að líta á það sem stórt sameiginlegt viðfangsefni að tryggja að menn skili sköttum og skyldum í samræmi við lög og reglur á hverjum tíma.

Þá fá menn algjörlega frjálsar hendur með að sinna starfsemi í einu landi frá heimalandinu og nota bæði launakjör og ýmsa aðra hluti, réttindi og annað því um líkt, sem þar gilda. Þá verður handleggur að eiga við skattskilin, þá verður hætt við að einhverjir fleiri en Norðurhérað fái lítið útsvar ef svo heldur sem horfir. Það væri fróðlegt að heyra hvernig hæstv. fjármálaráðherra metur horfurnar í þessum efnum, kannski við annað tækifæri af því að við höfum ekki mikinn tíma til þess hér, og hvað ríkisstjórnin er að gera í sambandi við vinnuna að þjónustutilskipuninni. Er eitthvað verið að skoða það af íslenskum sjónarhóli hvernig menn geti þá komið vörnum við og reynt að berjast gegn því að þessi ósköp gangi yfir okkur?

Það er komið inn á það í skýrslunni, og það er alveg hárrétt, að auðvitað hefur verið viðleitni í gangi, t.d. hjá Efnahags- og framfarastofnuninni OECD og út af fyrir sig Evrópusambandinu og víðar, að sporna gegn þessu. Það er búið að vera lengi. Við bentum á það, andstæðingar þess að fara út í þetta vitleysisævintýri með alþjóðlegu viðskiptafélögin á sínum tíma, að það gengi algerlega þvert á hina alþjóðlegu viðleitni til að loka þessum smugum. Svo lengi sem einhverjir komast upp með það að grafa undan eðlilegri fjáröflun samfélaganna til að standa straum af sameiginlegum útgjöldum verður þetta vandamál við lýði. Það er alveg ljóst. Meðan einhverjir eru á ferli og undirbjóða verða alltaf einhverjir skammsýnir, þröngsýnir stjórnmálamenn af tagi hægri mannanna hér sem vilja elta í þessa átt, ekki bara af því að þeir átti sig ekki á því að þetta er tóm ófæra heldur vegna þess að þetta er aðferð til þess að grafa undan samneyslunni og veikja stoðir hins samábyrga velferðarsamfélags með öfluga almanna- og velferðarþjónustu.

Umræða um skattamál er mjög mikilvæg. Það þarf að halda uppi áróðri gegn skattsvikum. Það er stórt sameiginlegt verkefni. Það þarf að kveða niður róginn um hinn opinbera rekstur, róg hægri manna um allt sem opinbert og félagslegt er. Það er eitt það ósmekklegasta í þessari umræðu síðustu 25 árin, frá því að nýfrjálshyggjan, thatcher-reaganisminn, hóf að tröllríða hér umræðu um efnahagsmál og skattamál á Vesturlöndum. Hinn samfelldi skipulagði rógur hægri aflanna um allan opinberan rekstur er angi af þessu vandamáli. Í hverju felst hann að þessu leyti, sérstaklega hvað varðar skattana? Jú, það er talað um hina miklu skattáþján. Stóreignafólki og gróðafyrirtækjum er vorkennt fyrir að borga skattana. Það sem verra er, haldið er uppi rógi um það sem við fáum fyrir skattana í staðinn fyrir að þetta á að vera öfugt, það á að innprenta mönnum að þeir eigi að vera stoltir af því að borga skattana sína. Það á að halda uppi upplýstri umræðu um hve mikið við fáum í staðinn, hvað það er gott að búa í samfélagi sem er með góða skóla og góða heilbrigðisþjónustu. Þarna eru hægri mennirnir verstu óvinirnir með málflutningi sínum. Það er þannig.

Auðvitað á að fordæma skattsvik. Þar erum við þó loksins sammála um eitt atriði. Að sjálfsögðu á að taka hart á þeim en það liggur næstum því í orðunum þegar menn eru að vorkenna mönnum fyrir að borga sanngjarna, eðlilega skatta, þeim sem hafa háar tekjur eða mikinn hagnað eða miklar fjármagnstekjur, að þeim sé vorkunn þótt þeir reyni að komast undan því. Sú er hættan við þennan málflutning.

Svo höfum við líka séð hluti gerast eins og þá sem eru fólgnir í því að hafa skattprósenturnar allt of misjafnar á launatekjum og fyrirtækjum. Það er komið inn á það í skýrslunni og þau orð ætla ég að gera að lokaorðum mínum, þessi sem snúa að einkahlutafélagavæðingunni. Það er auðvitað mjög stórt mál vegna þess að hún hefur skatttekjur af ríkinu í stórum stíl. Það er ljóst og það bitnar sérstaklega þungt á sveitarfélögunum. Þar hefur ríkisstjórnin varðað veginn með áherslum sínum í skattamálum og útkoman er sú, eins og hér er komið inn á í skýrslunni, að það er stórfelld hætta á því að menn reyni að færa launatekjur sínar, hagnað sinn í gegnum einkahlutafélög og aðferðir til að fresta skattlagningu með öllum tiltækum ráðum.

Dæmi um það er bátur í verstöð hér á landi sem hefur enga áhöfn. Ég veit ekki hvort hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur heyrt það dæmi. Það er bátur fyrir vestan okkur sem hefur enga áhöfn. Um borð eru hins vegar fimm einkahlutafélög, enginn maður, bara fimm kennitölur, fimm einkahlutafélög. Þannig er ástandið sums staðar að verða.

Aðalatriði málsins eru þau, frú forseti, að við eigum að tryggja að hér sé réttlátt skattkerfi, þeir borgi sem hafi getuna til þess. Við eigum að halda uppi upplýstri umræðu um hversu mikið við fáum til baka fyrir skattana okkar.