131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[13:36]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja sem hér er tekið til umfjöllunar kemur eiginlega fram í eðlilegu framhaldi af þeirri breytingu sem orðið hefur í orkugeiranum eftir að samkeppnissjónarmið voru þar innleidd og sem hefur það í för með sér að orkufyrirtækin í landinu njóta nú ekki lengur þeirra skattfríðinda og þeirrar verndar sem þau áður nutu í krafti þess að um var að ræða opinber fyrirtæki fyrir utan samkeppnismarkað. Það má því segja að þetta sé í eðlilegu framhaldi af því sem þegar hefur verið ákveðið á hinu háa Alþingi.

Hins vegar er ástæða til að gera sér það alveg ljóst þegar það kemur hér til umfjöllunar og afgreiðslu í þinginu að þetta getur komið til með að hafa áhrif annars vegar á orkuverðið — ef fyrirtækin lenda í verulegri skattlagningu má búast við að það komi fram í verðinu til neytenda — eða þá hitt sem gæti líka orðið raunin að arðgreiðslur til eigendanna, sem að stærstum hluta til eru sveitarfélög — ef við horfum bæði á Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur eru það sveitarfélög sem eiga þessi fyrirtæki — að það komi fram í arðgreiðslu til sveitarfélaganna og þá til lækkunar á arðgreiðslunni.

Í því samhengi finnst mér ástæða til að vekja athygli á því að enn hefur ekki verið gengið frá málum sem lúta að skattgreiðslu ríkisins til sveitarfélaga. Þar er ég sérstaklega að tala um fasteignaskatta af eignum ríkisins í sveitarfélögunum en eins og menn þekkja hefur verið um það rætt í talsverðan tíma að á þessu yrði breyting og að ríkið yrði ekki undanskilið fasteignaskatti eins og verið hefur hingað til.

Mér finnst mjög mikilvægt að þau mál verði til lykta leidd hið fyrsta þannig að hér sé ekki bara um það að ræða að sveitarfélögin í landinu sem eiga í orkufyrirtækjum verði af arðgreiðslum sínum og ríkið fái skatt af fyrirtækjunum, heldur verði það heildstætt skoðað líka með hvaða hætti ríkið ætlar að standa sveitarfélögunum skil á þeim sköttum sem eðlilegt er að það greiði til þeirra. Ég vil vekja athygli á þessu hér vegna þess að enn er í gangi vinna um tekjustofna sveitarfélaga þar sem þetta hefur verið sérstaklega til skoðunar og vinna varðandi tilfærslu á tekjum frá ríki til sveitarfélaga. Það er mjög nauðsynlegt að hið fyrsta fáist einhver niðurstaða í það mál.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi líka áðan í ræðustól mikilvægi þess að leiða til lykta hið fyrsta og óskaði eftir upplýsingum frá fjármálaráðherra um það hvað liði samningum við Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ um eignarhlut þeirra í Landsvirkjun. Allmörg ár eru liðin síðan ég vakti máls á því að það væri mikilvægt fyrir þessi tvö sveitarfélög sem hafa verið helmingseigendur að Landsvirkjun að þau gætu losað um eignarhlut sinn í þessu fyrirtæki. Hvað varðar Reykjavíkurborg er hún auðvitað í þeirri sérkennilegu stöðu að vera 45% eigandi að Landsvirkjun, stærsta orkufyrirtæki landsins, vera mjög stór viðskiptavinur Landsvirkjunar og vera í samkeppni við Landsvirkjun. Það má segja að hún sé ekki bara beggja vegna borðsins heldur allan hringinn í kringum það. Miðað við að verið er að innleiða samkeppnissjónarmið í raforkugeirann getur þetta ekki gengið svona áfram og ég tel að öllum sé það ljóst. Nauðsynlegt er því að leiða þetta mál til lykta hið fyrsta.

Þess vegna tek ég undir þau tilmæli frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að fjármálaráðherra upplýsi þingið um það hver staða málsins er og hver sjónarmið ráðherrans eru í því sambandi.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Það er í sjálfu sér einfalt en það hefur ákveðnar hliðarverkanir sem ég hef hér nefnt og mikilvægt er að á því verði tekið í tengslum við afgreiðslu málsins.