131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fsp. 5.

[15:38]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að ráðherrar skipti sér ekki um of af stofnunum sem heyra undir ráðuneyti þeirra og gefi þeim það svigrúm sem þær þurfa.

Hins vegar ber ráðherrum og ríkisstjórn að hafa afskipti af málum þegar vá er fyrir dyrum, svo að vitnað sé í fyrirsögn á grein sem tólf fræðimenn á sviði handritarannsókna skrifa í Morgunblaðið síðastliðinn laugardag. Greinin heitir „Vá fyrir dyrum í Handritadeild Landsbókasafns Háskólabókasafns“. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„… og það er á hendi ráðamanna safnsins og yfirvalda þeirra að veita fé til þess að ávaxta þann menningararf í rannsóknum og textaútgáfum …“

Hér er varnaðarorðum beint til stjórnvalda, m.a. hæstv. menntamálaráðherra, um að grípa í taumana og koma í veg fyrir að hér verði alvarlegt slys.