131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[15:49]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er rætt um áformin um sölu Símans. Ég vil í upphafi vekja athygli á því að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ítrekað flutt mál um að stöðva söluferli Landssímans, sem nú heitir Síminn, til að fara ofan í það mál og kanna hvort við séum þar á réttri braut. Á að stöðva það alveg eða selja hluta af honum? Í okkar huga er alls ekki einsýnt að við eigum að halda áfram þeirri vegferð sem nú er með sölu Landssímans.

Það er líka rétt að vekja athygli á því að þessi umræða fer fram hér á Alþingi. Við höfum ítrekað rætt málið bæði í haust og nú eftir áramót. Við höfum rætt um um söluferli Símans. Við höfum viljað eiga skoðanaskipti við þá ráðherra sem fara með þessa málaflokka, hæstv. fjármálaráðherra sem fer með hlutabréfin í Símanum, hæstv. samgönguráðherra sem á að bera ábyrgð á fjarskiptamálum í landinu og ekki hvað síst hæstv. forsætisráðherra sem er formaður einkavæðingarnefndar og hefur þar af leiðandi yfirumsjón með þessu ferli.

Hæstv. forsætisráðherra velur að taka þessi mál til umræðu í dag á viðskiptaþingi, þegar hann ætti einmitt að vera hér. Alþingi er vinnustaður hans númer eitt og hér á hann að svara fyrir málið. Hæstv. forsætisráðherra gæti þá líka svarað því hvers vegna hann hlustar í engu á vilja kjósenda Framsóknarflokksins. Fyrir rúmum tveimur árum gerði Gallup viðamikla skoðanakönnun meðal þjóðarinnar um viðhorf hennar til þess hver ætti að eiga Símann. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar svaraði því til að hann ætti að vera í opinberri eigu. Mikill meiri hluti framsóknarmanna vildi afdráttarlaust að Síminn væri í opinberri eigu. Langhæsta hlutfall framsóknarmanna á landsbyggðinni var þeirrar skoðunar. Á milli 70 og 80% sem sögðust hafa stutt Framsóknarflokkinn við síðustu alþingiskosningar vildu að Síminn væri áfram í opinberri eigu. Hæstv. forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins ættu kannski líka að vera til svara um hvernig hann rekur þetta mál þvert gegn vilja flokksmanna sinna og segja okkur hvort hann telji að ekkert hafi breyst í umgjörð fjarskiptamála í landinu sem krefjist þess að þessi mál séu endurskoðuð, að endurskoða þá ákvörðun að selja Símann.

Á undanförnum dögum hafa borist afdráttarlausar yfirlýsingar og kröfur frá öðrum aðilum á fjarskiptamarkaðnum sem krefjast þess að þessi mál verði endurskoðuð, að ákvörðunin um að selja Símann í heilu lagi verði endurskoðuð. Þeir telja að ekki verði byggt upp fullnægjandi og öflugt fjarskiptanet um allt land sem nái til allra landsmanna eða fleiri en eitt slíkt net. Það verði aldrei byggt upp nema eitt meginnet fyrir fjarskipti, til að senda út myndir eða stunda gagnaflutninga, sem þeir sem selja slíka þjónustu þurfa að hafa aðgang að.

Hvers vegna skoðum við þetta þá ekki út frá því þjóðhagslega sjónarmiði að það verði eitt öflugt gagnaflutninganet í landinu öllu sem nái til allra landsmanna og geti veitt þeim fyrirtækjum þjónustu sem vilja stunda fjarskipti og gagnaflutninga. Þessi grunnþjónusta ætti jú öll að vera í eigu landsmanna, grunnútbúnaður sem tryggir jafnrétti í fjarskiptum, jafnrétti í símaþjónustu, jafnrétti í gagnaflutningum og jafnrétti við dreifingu á sjónvarpsefni o.s.frv.

Ég tel svo mikið grundvallarmál á ferðinni að ólíðandi sé annað en að það verði tekið til endurskoðunar. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vöruðum strax við einkavæðingu á fjarskiptum. Við höfum lagst gegn henni alla tíð og gerum það enn. Við viljum að við séum ein þjóð í þessu landi. Við viljum að það ríki jafnrétti. Við viljum ekki að þjóðinni sé skipt upp í tvennt eða þrennt varðandi aðgengi að þeirri grunnþjónustu sem fjarskiptin eru.

Það er fullkomin heimska, finnst mér, ef menn halda að landið allt geti orðið samkeppnismarkaður í fjarskiptum. Ég held að meginmálið sé að tryggja fjarskiptin. Við ættum miklu frekar að tryggja öllum landsmönnum góð fjarskipti og það sé gert á ábyrgð þjóðarinnar, enda sjáum við hvernig hefur gengið á undanförnum árum. Stofnuð hafa verið ýmis fjarskiptafyrirtæki, símafyrirtæki, hvort sem þau hafa kallast Tal eða eitthvað annað, en hafa eðlilega jafnóðum lagt upp laupana. Það er ekki svo einfalt mál að byggja upp fjarskiptakerfi sem nær til allra landsmanna með viðunandi hætti.

Það er tiltölulega auðvelt að byggja upp fjarskipti fyrir Reykjavíkursvæðið en það er ekki viðunandi eitt og sér. Þótt hægt sé að fleyta rjómann af viðskiptum á Stór-Reykjavíkursvæðinu og í allra mesta þéttbýlinu um skamma hríð þá er það engin framkoma varðandi fjarskiptaþjónustu við þjóðina í heild. Enda hafa þessi fyrirtæki lagt upp laupana. Þau eru nú orðin sameinuð í fyrirtæki sem heitir Og Vodafone. Við erum núna með tvö fyrirtæki sem stunda slík fjarskipti hér á landi.

Mér segir svo hugur að ef búið verður að markaðsvæða þetta að fullu og bréfin geta gengið kaupum og sölum á markaði þá muni ekki verða nema eitt fyrirtæki á þeim markaði. Það yrði einkavædd einokun á fjarskiptamarkaði ef svo heldur fram sem horfir og vilji ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar nær fram að ganga. Er það í samræmi við skoðanir kjósenda Framsóknarflokksins sem lýstu því yfir í fjölmennri og ítarlegri skoðanakönnun að mikill meiri hluti þeirra vildi að Síminn og þjónusta hans væri í opinberri eigu en yrði ekki markaðs- og einkavædd? Ég held að hæstv. forsætisráðherra ætti að koma og svara fyrir það.