131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[18:04]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér sást yfir það áðan varðandi frumvarpið sem hér liggur fyrir að nefna þau ákvæði er varðar það sem við kölluðum áður fyrr svokallaðan hafróafla, þ.e. að skipum sé leyfilegt að koma með allt að 5% af afla botnfisks á hverju fiskveiðiári að landi án þess að það reiknist til kvóta.

Nú á að setja inn nýtt ákvæði þar sem leyfilegt á að vera að koma með allt að 0,5% af uppsjávarafla að landi. Mér leikur hugur á að vita hvort 5% séu ekki of lágt. Það kann að vera að einhver hafi spurt hæstv. sjávarútvegsráðherra að því áður í dag en það hefur þá farið fram hjá mér, sennilega á meðan ég var að hlaupa á milli húsa. Mig rekur minni til þess að ég var með nokkuð ítarlega fyrirspurn í fyrra til hæstv. ráðherra einmitt um meðaflann. Þar kom í ljós að allnokkur skip höfðu fyllt heimildina og þá vaknaði upp sú spurning hvort þetta væri of lágt, hvort það væri ekki full ástæða til að fara hærra, jafnvel upp í 10% til þess einmitt að gefa mönnum svigrúm til að koma með þann afla sem þeir veiða að landi án þess að eiga endilega fyrir honum kvóta þannig að hann verði að verðmætum.

Við vitum að eftir að reglan var samþykkt hefur hún skilað að landi mjög miklum verðmætum, fleiri hundruð milljónum sem hafa gagnast sjóði sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur yfir að ráða mjög vel og á að nýta þá peninga í rannsóknir.

Spurning mín til ráðherra á meðan hann er hér og ég hef tækifæri til að koma með hana er einfaldlega þessi: Væri ekki ástæða til að íhuga að hækka prósentuna úr 5% og jafnvel upp í 10%?