131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Íslenskir fiskkaupendur.

487. mál
[12:23]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það eru ekki margir dagar síðan við ræddum um þessi mál á Alþingi. Við ræddum þá frumvarp um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu sem tveir þingmenn, Frjálslynda flokksins og Samfylkingar, hafa lagt fram á Alþingi nokkur ár í röð.

Að sjálfsögðu ætti allur afli að fara á markað ef allt væri með felldu, uppboðsmarkað þar sem menn gætu keppt á jafnréttisgrundvelli um hráefnið. Ég vil í þessu sambandi nefna að t.d. í Færeyjum, þar sem er skilið milli veiða og vinnslu, hefur töluvert af hráefnið farið óunnið úr landi. Þar fallast menn á það núna að setja reglur um að allur afli fari á markað og verði boðinn upp, það sé í raun langheilbrigðasta umhverfið til verðmyndunar og gagnist öllum til lengri tíma litið að lögmál markaðarins fái að ráða og heiðarleiki í opnum viðskiptum.