131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:43]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég vildi gjarnan geta gefið út loðnukvótann fyrr ef einhver raunhæfur möguleiki væri á því en það hefur ekki verið til þessa. Við höfum þurft að bíða alveg fram í janúar eða jafnvel febrúar á undanförnum árum áður en við fengjum nægilegar upplýsingar og það hefur ekki verið vegna þess að rannsóknum hafi ekki verið sinnt.

Hins vegar get ég tekið undir það með hv. þm. Kristjáni L. Möller að ég mundi gjarnan vilja sjá meiri fjármuni til hafrannsókna og til Hafrannsóknastofnunarinnar án þess að ég sé þó á nokkurn hátt að segja að stofnunin skili ekki hlutverki sínu með þeim fjármunum sem hún er með í dag. Það eru svo margir hlutir sem við vildum gjarnan rannsaka og ég vil þá hvetja hv. þingmann til að standa vel við bakið á mér í þeirri viðleitni sem ég hef uppi til að tryggja Hafrannsóknastofnuninni þá fjármuni sem henni eru nú þegar ætlaðir með lögum.