131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:44]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég lýsi stuðningi mínum við kröfu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um að umræðum um afnám laga um Tækniháskóla Íslands verði frestað þangað til hæstv. menntamálaráðherra getur verið viðstödd. Frá því að þetta mál var síðast á dagskrá Alþingis hafa þeir sem best þekkja til, álitsgjafar menntamálanefndar, komið á fund hennar. Mörg álitamál eru uppi sem mér finnst eðlilegt að hæstv. ráðherra hlusti á, og reyndar óeðlilegt að hún hlusti ekki á og taki tillit til við meðferð málsins.

Það er verið að gera tillögu að grundvallarbreytingu, eða nýjung skulum við segja, í rekstrarformi skóla og það er réttlát krafa að hæstv. ráðherra verði hér viðstödd þegar við ræðum það mál. Jafnframt eru uppi ýmsar áhyggjur um þá nemendur sem munu sækjast eftir námi við skólann. Ef af verður samkvæmt tillögum frá nefndinni verður það t.d. eina námið sem ekki er hægt að stunda á Íslandi nema borga fyrir það skólagjöld.

Ég lýsi eindregnum stuðningi við það að hæstv. ráðherra verði viðstödd og held að það hljóti að vera henni hollt að hlusta á rök þeirra sem fjölluðu um málið í menntamálanefnd.