131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:59]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er auðvitað alveg ljóst, það held ég að við hljótum öll að geta verið sammála um sem höfum fylgst með störfum Alþingis lengi, að kæruleysi ráðherra almennt gagnvart því að sinna þingskyldum sínum fer vaxandi. Viðvera þeirra hér á ráðherrabekkjum er sífellt minni og það sem alvarlegast er og ég hef áður gagnrýnt er að því miður hefur yfirstjórn þingsins gefið eftir í þessum efnum og gerir ekki gangskör að því að réttmætar óskir þingmanna um að ráðherrar séu til staðar og til svara séu virtar. Það var alsiða áður að fresta umræðum og láta ráðherra hafa hitann í haldinu ef þeir voru ekki hér til að fylgja málum sínum eftir í gegnum þingið. Forusta þingsins studdi þingmenn og stóð í lappirnar fyrir hönd þingsins með því að láta ráðherrana ekki komast upp með það að sinna ekki þingskyldum sínum og embættisskyldum að þessu leyti sem þeir hafa burt séð frá því hvort þeir eru kjörnir þingmenn eða ekki.

Auðvitað metur hæstv. menntamálaráðherra það sjálf hvort hún telur einhverjar skyldur á erlendri grund mikilvægari en þær sem hún hefur að gegna hér heima en þá stjórnar hún því ekki jafnframt úr fjarlægð hvað er á dagskrá Alþingis. Það á forseti að gera og það á hann helst að gera í góðu samstarfi við þingmenn og formenn þingflokka.

Þegar hér koma fram fullkomlega réttmætar og rökstuddar óskir um það að úr því að hæstv. menntamálaráðherra þarf að vera erlendis sé þetta mál látið bíða og önnur tekin fyrir á meðan eru það auðvitað engin viðbrögð af hálfu hæstv. forseta að þegja þunnu hljóði og að formenn þingflokka stjórnarliðsins komi hér með útúrsnúningaþvælu af því tagi sem þeir hafa gert, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og Hjálmar Árnason. (Gripið fram í.) Síðan hvenær varð 2. umr. um þingmál eitthvað annars eðlis en 1. eða 3. umr.? Síðan hvenær var það þannig að ráðherra sé algerlega stikkfrí og þurfi ekki að vera til svara pólitískt við 2. umr.? Er hann ekki áfram ráðherra? Fer hann ekki áfram með framkvæmdarvaldið? Hefur hann ekki áfram sömu þingskyldur? Og fer ekki málið í hans hendur til framkvæmda ef Alþingi gerir það að lögum? Auðvitað er þetta málflutningur sem ekki stenst.

Það er leiðinlegt að heyra hv. þm. Einar K. Guðfinnsson tala hér niður til þingmanna, tala um þá eins og óreynda kjána sem hann þurfi að fara að kenna stafrófið. (EKG: Þú lætur þannig.) Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson — þú þarft ekki að kenna mér stafrófið í vinnubrögðum Alþingis. (Gripið fram í.) Það er bara einfaldlega þannig.

Hvernig er það t.d. við 2. umr. fjárlaga, dettur einhverjum í hug að þá séu ráðherrar stikkfrí af því að fjárlögin séu á höndum þingsins? Nei, það er órofa hefð fyrir því að þá séu ráðherrarnir hér við og svari spurningum. Það er líka vitað að ráðherrar gefa stundum pólitískar yfirlýsingar, yfirlýsingar sem geta haft lögskýringargildi, og þær geta nákvæmlega eins komið fram við 2. umr. eins og 1. eða 3. Þessi málflutningur hrynur um sjálfan sig. Ég vil gjarnan heyra hvað forseti hefur um þetta að segja, þingreyndur maðurinn. Ætlar hann að leka niður fyrir framkvæmdarvaldinu í þessu tilviki eins og fleirum?

(Forseti (HBl): Hann stendur nú traustum fótum.)