131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Hámarkshraði á tvöfaldri Reykjanesbraut.

452. mál
[14:21]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Tvöföldun Reykjanesbrautar er að sjálfsögðu mikið framfaraskref og ber að fagna því að ráðherra ætli að bjóða verkið út nú í vor. Við förum þannig langleiðina með að klára þetta þótt ekki sé enn þá alveg vitað hvernig á að finna peningana, hvenær á að byrja eða hvenær á að klára. Nóg um það.

Mér datt í hug, í framhaldi af þeirri umræðu sem var hér áðan, hvort ekki mætti leysa málið eins og víða er gert erlendis. Þar eru ljósaskilti yfir vegum sem sýna ökumönnum á hverjum tíma hversu hratt má aka. Þannig ljósaskilti væri t.d. hægt að setja upp yfir Reykjanesbraut. Þannig væri hægt að stjórna hámarkshraðanum á hverjum tíma miðað við færð, þ.e. hálku, bleytu og annað þess háttar.

Hins vegar væri gaman að heyra hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni hversu mikinn tíma hann telur að sparist ef hraðinn á brautinni yrði aukinn. Hann þekkir þann veg mjög vel.