131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Flugsamgöngur til Ísafjarðarbæjar.

507. mál
[14:54]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Samgöngur milli staða eru það sem mestu máli skiptir á Íslandi í dag þegar fólk velur sér búsetu. Í dag sættir fólk sig ekki við það að vera fast einhvers staðar inni um lengri eða skemmri tíma, heldur er nauðsynlegt að komast ferða sinna fljótt og vel þegar fólk vill vera á faraldsfæti.

Þær tölur sem hæstv. samgönguráðherra nefndi hér, grófa kostnaðaráætlun við að gera Þingeyrarflugvöll að fullkomnum varaflugvelli fyrir Ísafjörð, eru af þeirri stærðargráðu að ég held að varla geti nokkur maður sett sig upp á móti því að gengið verði í að gera þetta og það sem fyrst. Hér erum við að velta fyrir okkur að sjálfsögðu byggðasjónarmiðum, byggðinni á norðanverðum Vestfjörðum, og ekki síður öryggissjónarmiðum. Miklar fjárhæðir setjum við í snjólflóðavarnir og annað því um líkt til að gera byggð þarna betri og tryggja hana allan ársins hring.

Ég held að þetta litla mál sé ekkert síður stórmál í þá veru.