131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Losun koltvísýrings.

[13:56]

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir taka undir þakkir til hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur fyrir að vekja upp umræðu um þetta mjög svo stóra og mikla mál sem snertir grunn og skilgreiningu á bókhaldi okkar um losun gróðurhúsalofttegunda. Umræðan fram til þessa hefur snúist um útblástur af manna völdum en nú má segja að náttúrulegar ástæður bætist inn í þá umræðu og hugsanlega skilgreiningu.

Svo sem kunnugt er hefur í umræðunni verið talað um að þriðjungurinn af útblæstri komi frá bílum, þriðjungur frá fiskiskipum og þriðjungur frá iðnaði en nú bætast við það sem kalla má bæði af mannavöldum og af náttúrulegum ástæðum, skurðir eins og hér hafa verið nefndir, mýrar, náttúrulegar mýrar, urð og grjót með lífrænum leifum. Þar má kannski bæta við ýmsum urðunarstöðum þar sem m.a. metangaslosun er mikil en hún er 25 föld á við koldíoxíð og þannig má áfram telja. Þá er stóra spurningin auðvitað: Hvernig ætlum við að bregðast við? Ég tek undir þau sjónarmið að efla rannsóknir en ég vil líka nota tækifærið og minna á framtíðarsýnina um vetnistæknina sem er innan seilingar og með vetnistækni í fiskiskipum og bílaflota okkar getum við minnkað útblástur um tvo þriðju sem er mikill árangur og er framtíðarsýn, studd m.a. af ríkisstjórninni.

Ég tek líka undir að moka í skurði þar sem við á og hægt er og nægir að benda á Ölfusið þar sem endurheimt votlendis hófst formlega og hefur skilað glæsilegum árangri, sömuleiðis ræktunarátak á örfokasvæðum.

Hins vegar getum við varla tekið allar náttúrulegar ástæður inn í bókhald okkar vegna þess að það þyrfti ekki annað en eitt eldgos til að rústa því og við búum jú við þau skilyrði að hér verða annað slagið eldgos með alveg feikilegum útblæstri.