131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Endurnýjanlegir, innlendir orkugjafar í samgöngum.

52. mál
[15:05]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er ánægð með þessa umræðu og er í raun að bregðast við ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar. Ég gat ekki verið við upphaf umræðunnar en er ánægð að heyra að þessi tillaga okkar fær undirtektir hjá honum enda hefði annað komið mér mjög á óvart vegna þess að þingmaðurinn hefur sjálfur, þó hann sé í flokki þess ráðherra sem hefur haft sig mest í frammi um að kynna möguleika sem vetnisvæðing hérlendis gæti gefið Íslandi, flutt þingmannamál um að fara skuli heildstætt í þessi mál. Það vakti auðvitað mjög mikla athygli og sérstaklega vakti það athygli mína af því að á þessum tíma var ég búin að vera að skoða afskaplega vel hvað var í gangi hérlendis í sambandi við þessa nýju innlendu orkugjafa og möguleikana á því að fara í alveg nýja orkugjafa fyrir bíla og báta. Það kom mér því mjög á óvart þegar mál hv. þingmanns kom fram af því að ég átti von á því að þegar eitthvað slíkt kæmi þá yrði það stjórnartillaga. Ég þekki málið afskaplega vel og auðvitað gerum við okkur grein fyrir því betur en nokkrir aðrir sem hafa skoðað þessi mál að það er mjög takmarkað sem búið er að taka ákvarðanir um hjá ríkinu. En hvað er þá búið að taka ákvarðanir um hjá ríkinu? Hvað hefur vakið svona gífurlega mikla athygli langt út fyrir landsteinana, ekki bara í Evrópu þaðan sem við höfum fengið peningana í þetta verkefni heldur líka vestan hafs? Minnist ég þess að fyrir um það bil tveimur árum síðan var haldinn fundur í Pentagon í kjölfar þess að verið var að skera niður áform um stórvirkjanir þar. Stórt kort hékk upp á vegg, eftir því sem mér var tjáð, af Íslandi og sagt var: „Þarna á þessari litlu eyju eru menn framsýnir. Þarna á að fara að vinna að því að á þessum stað verði fyrsta hreina hagkerfið í veröldinni af því að þeir eru farnir að gera það sem allar þjóðir ættu að vera að gera, þ.e. að skoða möguleikana á að framleiða orku til að framleiða vetni. Þar vilja menn vera tilbúnir til að nýta sér þá tækni sem allar bílaverksmiðjur í heiminum eru að rannsaka möguleikana á, að framleiða bifreiðar og vélar sem geta brennt vetninu.“

En hér höfum við látið okkur nægja að setja í gang samstarf við NýOrku, VistOrku, samstarf af hálfu háskólans með mjög litlum ríkisfjármunum. Ég held að 1 milljón hafi komið frá ríkinu í gegnum aðild háskólans að þessu verkefni. Hins vegar höfum við fengið hundruð milljóna í styrki úr rannsóknasjóðum Evrópusambandsins og það er ágætt. En það hefur þýtt að hingað hafa streymt þingmenn frá Evrópu, úr öllum löndum Evrópu, og við sem eigum sæti í utanríkismálanefnd þekkjum það vel því að það erum við sem fyrst og fremst tökum á móti þeim sem stjórnmálamenn fyrir utan það að þessir hópar fara síðan í heimsóknir til orkufyrirtækjanna og fá kynningar af ýmsu tagi um hvað hér er að gerast og áformin, áformin sem eru bara áform enn þá og hafa m.a. engan lagaramma sem gefur vísbendingar um hvert stjórnvöld stefna og hversu mikil alvara er í málum hjá stjórnmálum og það vil ég gagnrýna.

Í fyrra tók ég á móti Þjóðverja sem hafði verið að vinna með þessi mál í þýska þinginu og hann tók allan pakkann. Hann sagði við mig á eftir: „Hvernig stendur á því eftir allan boðskapinn um það sem er í farvatninu á Íslandi“ — hann var búinn að fara í heimsókn á alla staðina og tók í þetta marga daga — „að þegar ég spyr hvort til sé áætlun um virkjanir eða hvernig eigi að skaffa orku til að framleiða vetnið þá eru engin svör?“ Til að vera viss um að ástandið væri kannski aðeins betra en það sem þessi Þjóðverji var að gagnrýna þá bar ég fram fyrirspurn í haust og reyndar margar fyrirspurnir um hin ýmsu áform í virkjanamálum til að geta lagt mat á hvað menn væru að hugsa inn í framtíðina með framleiðslu á vetni í þessa veru því ef við ætlum að hafa hreint hagkerfi þá ætlum við ekki bara að nota vetni á bíla heldur líka skipaflotann. Við skulum gera okkur grein fyrir því að 50% mengunar í andrúmsloftinu koma frá þessum vélum.

Þess vegna bar ég fram fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra og fékk svar, í umræðu fyrir rúmri viku. Þá kom upp úr kafinu að engar áætlanir eru til um hvaða virkjanir í framtíðinni eigi að skaffa orku til að framleiða vetni. Skýringin var sú að þetta mundi dragast meira hjá þeim framleiðendum sem eru að vinna við að útbúa þessar vélar. Ég vil skjóta því að að vetnið tekur svo mikið rými að stórir tankar eru á strætisvögnunum sem nú eru í tilraunaakstri og engin leið hefur verið að finna út hvernig hægt er að nota vetni í bíla öðruvísi en að fá áfyllingu eftir um það bil 150 kílómetra. En það mundi þýða ofboðslega uppbyggingu á tankakerfi að afgreiða slíkt. Þá segir hæstv. iðnaðarráðherra að það sé svo langt í að þetta leysist, að menn telji að bifreiðar af þessum toga muni ekki koma á markað fyrr en á árunum 2020–2040. Það er ekkert óskaplega langt þangað til 2040 rennur upp. Það eru 35 ár. Við erum því að segja að 15–35 ár séu þar til hægt verður að fara raunverulega í aðgerðir sem skipta máli. Þá hét það að við ættum svo mikið af orkulindum til að virkja að ekki þyrfti að geyma neitt og að ekki þyrfti að taka neitt frá auk þess sem allir stóriðjusamningar mundu renna út áður en þessi bílafloti með nýjum vélum fyrir vetni kæmi á markaðinn. Þetta er auðvitað stórundarleg afstaða hjá stjórnvöldum þeirrar þjóðar sem ætlar að vera með fyrsta hreina hagkerfið.

Sömuleiðis liggur fyrir sá möguleiki að gera samninga við stóriðjufyrirtæki um að nýta afgas frá verksmiðjum og virkja það. Þá væri hægt að framleiða m.a. metanól eins og nefnt var í umræðunni og gera það ódýrt. Það hefði verið mjög snjallt og um það hef ég áður spurt hvort í farvatninu væri að semja við stóriðjufyrirtækin, sem fá núna orku úr viðkvæmum orkulindum, um að þau skiluðu afgasinu. En það hefur ekki verið gert. Þess vegna leyfi ég mér að gagnrýna hvað menn taka stórt upp í sig varðandi vetnisvæðinguna og hve lítil innstæðan er þegar á reynir.