131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Fjárþörf Samkeppnisstofnunar.

54. mál
[15:54]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þó að mér fyndist þau ekki vera nægilega upplýsandi fyrir málið og um það sem hér var spurt. Mér heyrðist á hæstv. ráðherra að þetta mál væri úrelt, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt. Það getur varla verið úrelt að kalla eftir auknu fjármagni til Samkeppnisstofnunar og að það sé byggt á faglegu mati sem hér er lagt til að fram fari á fjárþörf stofnunarinnar. Mér fannst hæstv. ráðherra alls ekki svara því hvort slík kostnaðargreining hafi farið fram og þá á þeim grunni sem ég lýsti áðan, að það yrði ekki bara miðað við að hægt væri að auka málafjöldann sem tekinn væri til umfjöllunar og hún tæki ekki svona langan tíma, heldur að stofnunin gæti sinnt frumkvæðisrannsóknum sínum.

Ég nefndi að fjárþörf stofnunarinnar væri a.m.k. 100 millj. til viðbótar því sem nú er. Það hefur komið fram hjá forstjóra stofnunarinnar. Ég spyr: Hve mikið fjármagn mun stofnunin fá? Ég gat ekki heyrt að hæstv. ráðherra svaraði því. Lausleg þarfagreining sem gerð hefur verið, eftir því sem ég best veit, er að fjölga þurfi sérfræðingum úr 11 í 21 bara á samkeppnissviðinu. Ég spyr ráðherra um þetta vegna þess að það eru einmitt slík atriði sem ég hef verið að kalla eftir og ekki fengið nægjanleg svör við.

Það hefur a.m.k. ekki verið gert hingað til þó að hugsanlega hafi verið gerð einhver lausleg þarfagreining í tengslum við það mál sem hæstv. ráðherra boðaði, en það er nauðsynlegt vegna þess að það hefur ekki verið gert allan þann tíma sem Samkeppnisstofnun hefur starfað. Þess vegna kalla ég eftir því að hæstv. ráðherra svari þessum spurningum nú við umræðuna.