131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Landsvirkjun.

[13:34]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt að fram komi við upphaf umræðunnar að auk þess að gegna þingmennsku er ég fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn Landsvirkjunar og litar það trúlega nokkuð viðhorf mín í málinu.

Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að koma til umræðna við mig um málefni Landsvirkjunar. Ég vil byrja á því að óska ráðherranum hjartanlega til hamingju með þá viljayfirlýsingu sem hún og borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórinn á Akureyri gerðu á dögunum um kaup ríkisins á eignarhluta sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Það er löngu tímabært skref. Við í Reykjavíkurlistanum höfum talað fyrir því í bráðum 10 ár og fyrir því eru fjölmargar góðar ástæður.

Það er þarflaust fyrir Reykvíkinga að binda 20 milljarða kr. í Landsvirkjun sem nýta má til brýnni hagsmunamála fólksins í borginni. Það er ankannalegt að íbúar þessara sveitarfélaga séu í umframábyrgðum fyrir tugi milljarða um starfsemi sem varðar ekki beina hagsmuni þeirra. Það er skrýtið fyrir önnur sveitarfélög að bara Reykjavík og Akureyri fái að vera með í Landsvirkjun og í samkeppnisumhverfi á raforkumarkaði er ótækt að Reykjavíkurborg sé bæði með Orkuveituna og nærri helmingsstöðu í Landsvirkjun. Við þær aðstæður verður engin samkeppni og því er ástæða til að óska ráðherranum til hamingju með þetta skref og eins hitt að kaupin eiga ekki að ganga til útgjaldaaukningar heldur til að hreinsa upp þann uppsafnaða vanda sem lífeyrisskuldbindingar gagnvart opinberum starfsmönnum sveitarfélaganna eru.

Þó að þetta sé sniðugt fyrir Reykvíkinga eru framtíðaráform ríkisstjórnarinnar meira eins og þokan hér úti fyrir, ansi óljós og satt að segja furðuleg sum. Hér berast fréttir af því að sameina eigi þrjú ríkisfyrirtæki í raforkuiðnaði í stærsta ríkisfyrirtæki Íslandssögunnar með algera einokunarstöðu á þessum markaði. Það minnir á hugmyndir sama ráðherra um að sameina Landsbankann og Búnaðarbankann í einn banka áður en hann yrði einkavæddur. Sem betur fer varð ekki úr þeim skrýtnu hugmyndum og við njótum þess nú að Landsbankinn og Búnaðarbankinn eiga í virkri samkeppni á fjármálamarkaði til hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Öll vitum við eitt. Vitlausasta rekstrarfyrirkomulag í veröldinni er einkavædd einokunarstarfsemi sem allur almenningur og atvinnulíf verða að eiga viðskipti við. Með því að sameina Landsvirkjun, Orkubúið og Rarik í eitt fyrirtæki er verið að skapa slíkan ríkiseinokunarrisa og yfirlýsingarnar benda til þess að síðan eigi að einkavæða hann. Gegn því værum við í Samfylkingunni algerlega vegna þess að ekki bara hefði það fyrirtæki yfirburðastöðu á raforkumarkaði heldur ætti það líka grunnnetið sjálft, háspennulínurnar sem öll önnur fyrirtæki á markaðnum verða að keppa við. Við slíkan risa er illmögulegt fyrir nokkurn að keppa og maður hlýtur þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta sé ekki einhver misskilningur, hvort ekki hafi bara farið út röng fréttatilkynning. Það getur ekki verið að nokkur ríkisstjórn ætli að halda þannig á hagsmunum almennings að búa fyrst til stærsta ríkiseinokunarfyrirtæki Íslandssögunnar og færa það síðan einkaaðilum, og alla þá aðstöðu sem því fylgir.

Þó að einkarekstur í orkuvinnslunni sjálfri geti haft jákvæðar afleiðingar, svo sem að koma í veg fyrir óhagkvæmar fjárfestingar og örva nýjar atvinnugreinar, er alger frumforsenda fyrir því að það sé virk samkeppni, fjölbreytni á markaði, fjölbreytni í eignarhaldi og síðast en ekki síst að þjóðvegirnir sjálfir, háspennulínurnar, grunnnetið í raforkumálunum, séu í þjóðareigu og allir eigi jafnan aðgang. En ekki bara það, auknum einkarekstri í orkuvinnslu sem er fyrirsjáanlegur verður að fylgja auðlindagjald því að við getum ekki leyft einkaaðilum að virkja auðlindir landsins endurgjaldslaust. Við gætum eins gefið þeim fiskimiðin því að þá værum við með virkjununum að gefa þeim vatnsföllin og gefa þeim jarðhitann.

Vegna þessarar einkennilegu umræðu um hugmyndir hæstv. ráðherra um einkavæðingu þessa nýja stórfyrirtækis hljótum við líka að spyrja fyrir skattgreiðendur í Reykjavík, á Akureyri og á landinu öllu: Er ekki alveg tryggt að þeim opinberu ábyrgðum sem skattgreiðendur hafa gengist í fyrir þessi fyrirtæki og eru föst um áratugi verði aflétt en fyrirtækin ekki einkavædd með? Það verður að vera tryggt að íslenskir skattgreiðendur verði aldrei í ábyrgðum fyrir einkaaðila í rekstri á þessum markaði.