131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Landsvirkjun.

[13:45]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Yfirlýsingar hæstv. ráðherra nú um nauðsyn á samkeppni í orkumálum og áform um sameiningu Landsvirkjunar, Rariks og Orkubús Vestfjarða í einn orkurisa, sem síðan á að einkavæða, benda ekki til þess að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi lært mikið, benda t.d. ekki til þess að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi lært mikið af markaðsvæðingunni um áramótin í orkumálunum og tilheyrandi hækkunum á raforku.

Þetta er sami hæstvirti ráðherrann og fyrir nokkru reyndi að slá sér upp á því að flytja höfuðstöðvar Rafmagnsveitna ríkisins norður til Akureyrar. Þetta er sami hæstvirti ráðherrann og tók þátt í því að lofa Vestfirðingum öllu fögru þegar þeir voru þvingaðir til að láta af hendi orkubú sitt fyrir nokkrum árum.

Nú á að sameina og einkavæða þetta allt saman suður til Reykjavíkur, ef ekki til útlanda. Það sem hér á að fara að gerast, herra forseti, er ósköp einfalt. Það þarf að fara í aðgerðir til þess að hægt sé að velta vandanum af stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, af óhagstæðum samningum um rafmagn á útsöluverði til erlendra aðila, yfir á herðar almennra notenda. Það þarf að ná í tíu milljarða eigið fé Rafmagnsveitna ríkisins til að lappa upp á efnahagsreikning Landsvirkjunar og það þarf að finna aðferð til að færa stóriðjutapið yfir á almenna notendamarkaðinn.

Lóðrétt sameining, segir ráðherra. Það á að grauta enn frekar saman framleiðslu á raforku til stóriðju, framleiðslu til almennra aðila og smásölu á raforku til almennra notenda í landinu til þess að hægt sé að láta fleiri herðar bera byrðarnar. (Gripið fram í.)

Þetta er ekkert annað en tilræði við almenna raforkunotendur. Nær væri að fara í þveröfuga átt og reyna að einangra stóriðjutapið í sjálfstæðu (Forseti hringir.) fyrirtæki þar sem það væri gagnsætt og sýnilegt. Það er alveg á hreinu, herra forseti, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð mun gera það sem hún getur til að koma í veg fyrir þessi áform.