131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Landsvirkjun.

[13:47]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Þegar viljayfirlýsing sú sem hér er til umræðu var undirrituð var að mínu mati stigið rökrétt og skynsamlegt skref í þá átt að koma á samkeppni á íslenskum raforkumarkaði í framtíðinni.

Ég verð þó að segja að ég hef töluverðar áhyggjur af því að Reykjavíkurborg muni eiga erfitt með að standa við sinn hluta samkomulagsins. Það er nefnilega þannig að í apríl á síðasta ári fól borgarráð þáverandi borgarstjóra, Þórólfi Árnasyni, að losa borgina við eignarhlut sinn í Landsvirkjun samkvæmt niðurstöðum orkustefnunefndar borgaryfirvalda. Þegar á reyndi hrökklaðist þáverandi borgarstjóri frá málinu þar sem hann reyndist því miður ekki hafa umboð til að ganga frá því.

Nú hefur enn einn borgarstjórinn verið dubbaður upp hér í Reykjavík sem loksins undirritaði yfirlýsinguna. En blekið á henni var varla þornað þegar sagan endurtók sig og varaformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem nú situr í borgarstjórn Reykjavíkur, upplýsti að málið nyti ekki stuðnings innan R-listans og ítrekaði síðan afstöðu sína í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi og sagði að tilteknir borgarfulltrúar innan R-listans áskildu sér allan rétt til þess að samþykkja ekki sölu borgarinnar á eignarhlut sínum í Landsvirkjun — þrátt fyrir að R-listinn hafi sjálfur átt frumkvæði að málinu.

Því virðist sú undarlega staða vera komin upp í málinu að núverandi borgarstjóri, Steinunn V. Óskarsdóttir, hafi undirritað yfirlýsinguna án þess að hafa til þess fullt umboð frá borgarfulltrúum R-listans í Reykjavík. Ég get ekki betur séð, herra forseti, en að þetta mál allt saman sé að snúast upp í einhverja heljarinnar vitleysu af hálfu meiri hlutans í Reykjavíkurborg.

Við hljótum að gera þá kröfu til þeirra aðila sem koma að jafnmikilvægu málefni og hér er til umræðu að þeir hafi fullt og óskorað umboð til þess að ganga frá því. Það gengur ekki að slíkt sé gert upp á von og óvon eins og nú virðist vera raunin. Við gerum þá kröfu að við samkomulagið verði staðið en það strandi ekki á einhverjum innanhússátökum innan R-listans hér í Reykjavík.